Lesendabréf í blöðum gátu verið hugsvölun og uppspretta skemmtunar á árum áður. Nú eru flestir þeir sem hefðu í gamla daga skrifað lesendabréf komnir á Facebook og eru yfirleitt ekki eins skemmtilegir. Menn urðu þó aðeins að vanda málfar og framsetningu í lesendabréfunum. Margir sakna Húsmóður í Vesturbænum sem oft skrifaði í Velvakanda Morgunblaðsins, Húsmóðirin var eins og fastur dálkahöfundur.
Svo birtust einstaka sinnum bréf sem toppuðu allt, eins og til dæmis þetta hérna sem er frá 1983. Bréfið er birt í tilefni fréttar sem sjá má á vef RÚV. Þar er sagt frá „svörtum getnaðarmarkaði“. Í fréttinni kemur fram að Danir eru enn „stórir“ í sæðisbúskapnum, reyndar stærstir í heimi, þannig að það hefur ekki breyst á þrjátíu árunum sem eru liðin síðan þetta góða bréf var skrifað.