Loftárásir Bandaríkjanna á Sýrland virðast vera yfirvofandi ef marka má yfirlýsingar ráðamanna í Washington.
En það er spurning hvort þær bæti ástandið?
Er hægt að gera loftárásir þannig að þær dragi úr hernaðarmætti stríðsaðilanna.
Tony Blair segir að vernda þurfi sýrlensku þjóðina bæði fyrir Assad forseta og Al-Kaida sem vilji notfæra sér glundroðann í landinu.
Eru loftárásir leið til þess?
Varla eru menn að tala um beina hernaðaríhlutun í Sýrlandi, þar sem herlið frá Bandaríkjunum yrði sent á stríðsvettvang? Fyrir því er varla neinn pólitískur vilji.
Þá er líka spurning hver tekur við völdum í Sýrlandi ef Assad fellur. Sporin frá Írak hræða. Þar myndaðist valdatómarúm sem opnaði leiðina fyrir áhrif frá Íran og endalaus átök milli trúarhópa.