Er einhver alvara í þeim orðum formanns fjárlaganefndar að hætta við byggingu nýs Landspítala? Vigdís er úr Framsóknarflokki, löngum var þetta verkefni mjög á vegum þess flokks og í anda stefnu Framsóknarmanna í heilbrigðismálum. Því Framsóknarmenn áttu heilbrigðisráðherra samfellt í tólf ár, fram til 2007.
Lög um byggingu Landspítala voru samþykkt á Alþingi snemma í vor. Atkvæði féllu eins og hér má sjá. Þau voru samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta, langflestir Sjálfstæðismenn greiddu atkvæði með lögunum, þar á meðal formaður Sjálfstæðisflokksins, formaður Framsóknar sat hjá, Vigdís var fjarverandi, en einu þingmennirnir úr núverandi meirihluta sem greiddu atkvæði á móti voru Höskuldur Þórhallsson og Ragnheiður Elín Árnadóttir.
En það verður forvitnilegt að sjá hvort afstaðan hefur breyst nú þegar stjórnarandstaða þess tíma er komin í ríkisstjórn. Ætla menn að hætta við spítalabygginguna og þá með hvaða rökum – eru stjórnarþingmenn sammála því að þetta sé „steinsteypukubbur“?