Ég hef lengi notað vefinn Tripadvisor, og einstaka sinnum skrifað á hann sjálfur. Elsta umsögn mín á Tripadvisor er meira en tíu ára gömul. Ég hef skrifað um staði sem ég hef farið á erlendis, aldrei á Íslandi. Þessi vefur er náttúrlega merkilegur fyrir þær sakir að það eru notendurnir sjálfir sem gefa hótelum, veitingahúsum og ferðamannastöðum einkunnir.
Síðan ég notaði Tripadvisor fyrst hefur vefurinn vaxið mjög. Á hótelum og veitingahúsum víða um heim sér maður miða frá Tripadvisor. Sums staðar biður starfsfólkið mann jafnvel um að setja eitthvað inn á vefinn. Það er hægt að hlaða niður Tripadvisor appi í farsíma.
Í Guardian í dag birtist grein um hversu mikið sé að marka Tripadvisor. Það eru nefnd dæmi um veitingastaði sem stríðnispúkar hafa komið efst á lista Tripadvisor og eru ekki til. Einnig er sagt frá skýli fyrir heimilislausa sem varð að einu hæst metna hótelinu í Glasgow.
Tripadvisor er semsagt ekki óskeikult. En það vitum við væntanlega flest.
Samkvæmt minni reynslu er yfirleitt nokkuð öruggt að velja hótel í gegnum Tripadvisor. Niðurstaðan er oftast góð ef maður fylgir því sem er ráðlagt vefnum.
Það gegnir dálítið öðru máli með veitingahús. Þar er oft eitthvað skrítið á seyði. Þar sem ég þekki nokkuð vel til, eins og í Reykjavík og sums staðar á Grikklandi er ýmislegt sem orkar tvímælis. Vond og alltof dýr veitingahús tróna jafnvel á toppnum eða nálægt honum. Í Guardian greininni er nefnt að lengi hafi andað köldu milli matarblaðamanna og Tripadvisor.