Dómur yfir Bradley Manning fellur í dag og það er frekar kvíðvænlegt.
Ein ákæran á hendur Manning virðist alveg út í hött, og það er sú alvarlegasta – að hann hafi „aðstoðað óvininn“ með gjörðum sínum.
En Manning lak upplýsingum í WikiLeaks sem síðar birtust í virtum fjölmiðlum eins og Guardian, New York Times og Der Spiegel – hann kom aldrei upplýsingum til „óvina“.
Einhverjir óvinir Bandaríkjanna kunna að hafa lesið þessar fréttir – eins og heimsbyggðin – en það er býsna langsótt að tala um aðstoð við óvininn.
Ef Manning verður sakfelldur fyrir þennan ákærulið, hver er þá staða þeirra sem ljóstra upp um öryggis- og hermál, og hvernig standa fjölmiðlarnir sem birta upplýsingarnar?
Þarna má segja að vofi yfir stórfelld árás á tjáningarfrelsið – fyrir utan að Manning gæti átt yfir höfði sér margra áratuga fangelsisdóm. Þess er líka að geta að Manning er ekki fyrir alvöru dómstóli, heldur herdómstóli þar sem mikið af vitnisburðinum er leynilegur.
Annars er merkilegt að sjá að viðhorf til hins stórfellda eftirlitskerfis sem hefur verið komið upp í Bandaríkjunum síðasta áratuginn eru að breytast. Skoðanakannanir sýna að almenningur hefur meiri áhyggjur af eftirliti og persónunjósnum en hryðjuverkum. Það er ansi mikil breyting.
Uppljóstranir Edwards Snowden hafa haft mikil áhrif, nokkuð stór hluti Bandaríkjamanna telur að hann hafi unnið þjóðþrifaverk með því að skýra frá starfsemi NSA (National Security Agency). Andstöðuna við allt þetta eftirlit og upplýsingasöfnun er að finna í báðum stóru flokkunum, ekki síst á vinstri væng Demókrataflokksins og á hinum frjálshyggusinnaðri armi Repúblikanaflokksins. Frumvarp um að hefta starfsemi NSA var að vísu fellt í þinginu í síðustu viku, en munurinn var afar lítill.
Sem þýðir að málið er komið rækilega á dagskrá.