Það leynir sér ekki að mikið óöryggi er innan ríkisstjórnarinnar. Það er engin skjót leið til að koma af stað hagvexti á Íslandi, „stækka kökuna“, það tekur langan tíma að semja við erlenda kröfuhafa og afnema gjaldeyrishöft. Það er varla hægt að lækka skatta og nú er helst talað um niðurskurð. Hann felst þá líklega í fækkun ríkisstarfsmanna, en þar er ekki mikið svigrúm – starfsmennirnir eru langflestir í heilbrigðis- og menntakerfinu þar sem þegar hefur verið skorið inn að beini, eins og lesa má í þessari grein eftir Ómar H. Kristmundsson, prófessor í opinberri stjórnsýslu.
Guðsteinn Einarsson, kaupfélagsstjóri í Borgarnesi, skrifar grein í Skessuhorn þar sem hann ber saman ástandið á Íslandi og í Svíþjóð. Greininni lýkur með svofelldum orðum:
„Við búum einfaldlega við hagkerfi þar sem verðlag er á sífelldri uppleið. Stjórnlaust vegna afleitrar efnahagsstjórnunar, stjórnlaust því heildarhagsmunir víkja alltaf fyrir sérhagsmunum. Við viljum ekki ganga til samstarfs við aðrar þjóðir í efnahagsmálum vegna ímyndunarveiki. Við ímyndum okkur að þeir muni taka af okkur fiskinn, vatnið, rafmagnið, olíuna í Norður-Íshafinu sem við vonumst nú til að muni bjarga efnahag þjóðarinnar. Við erum hræddari við breytingar en óbreytt ástand. Hrædd við samstarf af því að við viljum fá allt en en ekki láta neitt af hendi á móti. Það eina sem við ættum að vera hrædd við er óbreytt ástand því það mun líklega leiða til annars „hruns“ eða ættum við frekar að segja, til áframhaldandi og viðvarandi „forsendubrests“.“