Það er rétt hjá Bjarna Benediktssyni að Landsdóm þarf að leggja niður hið bráðasta.
Landsdómsmálið gegn Geir Haarde var afar misheppnað. Stjórnmálamenn í lýðræðisríkjum á ekki að sækja til saka vegna rangrar stefnu eða ákvarðana. Geirist þeir sekir um refsivert athæfi á að reka slík mál fyrir almennum dómstólum.
En eins og bent hefur verið á þarf að breyta stjórnarskránni til að afnema Landsdóm. Þannig að það verður ekki gert í skyndi.
Og ef verður farið að krukka í stjórnarskrána hjóta að vakna upp kröfur um víðtækari breytingar. Tillögur Stjórnlagaráðs eru líklega dautt plagg í heild sinni, þótt þar innanum sé ýmislegt nýtilegt.
Það virðist til dæmis liggja á því að ákveða með hvaða hætti farið verður með beint lýðræði, hvaða skilyrði verði sett fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum sem hefur verið rík krafa um undanfarin ár. Um leið hlýtur að þurfa að skýra vald forsetans sem verður sífellt fyrirferðarmeiri. Nú er hann farinn að tala eins og hann stjórni utanríkisstefnu landsins.
Sjálfstæðisflokkurinn væri ábyggilega til í að skoða stöðu forsetans, en líklegt er að Framsókn væri treg.
Og svo er það auðvitað hið margumrædda ákvæði um þjóðareign á auðlindum. Allir flokkar hafa lýst sig fylgjandi því sem og mikill meirihluti landsmanna – svo það er varla neitt til fyrirstöðu.