Af einhverjum ástæðum hefur Sjálfstæðisflokkurinn kosið að vinna á Evrópuvettvangi með furðulegum félagsskap sem nefnist AECR. Í þessum hópi eru breski Íhaldsflokkurinn – þarna er enn eitt dæmi um hvernig við fylgjum forskrift breskra stjórnmála – og svo mestanpart flokkar frá Austur-Evrópu. Þar eru innan um einkennilegir spássíuflokkar og stjórnmálamenn sem eru hafa orðið uppvísir kynþáttahyggju, andúð á samkynhneigðum eða eru þekktir fyrir að vera í hópi þeirra sem viðurkenna ekki að loftslagsbreytingar af mannavöldum eru veruleiki.
Það er eiginlega vandséð hvað hinn nokkuð hófsami og velferðarsinnaði Sjálfstæðisflokkur er að vilja í þessum félagsskap. Nú um helgina var haldinn fundur þessara samtaka hér á Íslandi. Einn aðalræðumaðurinn var Evrópuþingmaðurinn Daniel Hannan, hann er þekktastur fyrir að fara um Bandaríkin og lýsa því yfir að breska heilbrigðiskerfið sé kommúnismi.
Maður skyldi ætla að flokkurinn ætti meiri samleið með hægri flokkum sem starfa á Norðurlöndunum og í Vestur-Evrópu. En þá er ekki að finna í þessum samtökum.