Viðskiptablaðið hefur verið fjölmiðla duglegast við að halda uppi vörnum fyrir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í lekamálinu. Það má líka rifja upp að þegar átökin urðu í Sjálfstæðisflokknum fyrir kosningarnar í fyrra var það Viðskiptablaðið sem birti könnun sem sýndi að Hanna Birna myndi fremur höfða til kjósenda en Bjarni Benediktsson.
Gísli Freyr Valdórsson, aðstoðarmaður Hönnu Birnu, hinn ákærði í lekamálinu, var til skamms tíma blaðamaður á Viðskiptablaðinu.
Í dag birtist á vef Viðskiptablaðsins frétt sem vekur athygli. Þar er bent á að tengdasonur Ragnhildar Hjaltadóttur, ráðuneytisstjóra í innanríkisráðuneytinu, sé blaðamaður á mbl.is. Segir að þessi flötur hafi ekkert verið rannsakaður í lekamálinu, en Ragnhildur hafi fengið minnisblaðið umtalaða sent á sama tíma og ráðherrann og aðstoðarmenn hans.
Það er semsagt ýjað að því í Viðskiptablaðinu að lekinn kunni að vera kominn frá ráðuneytisstjóranum sjálfum.
Í því sambandi má geta þess að Ragnhildur á langan feril í stjórnsýslunni og nýtur virðingar.
Annars er margt furðulegt að gerast í málinu. Gísli Freyr neitar sök. Í málsvörn hans kemur meðal annars fram að einhver hafi skoðað skjalið á vef ráðuneytisins klukkan 5.39, morguninn áður en Fréttablaðið birti fréttina. En raunar var blaðið þá komið í prentun.
Svo er náttúrlega hitt, að á fjölmiðlunum er fólk sem veit líklega hið rétta í málinu. Það eru blaðamenn á Fréttablaðinu og Morgunblaðinu sem fengu minnisblaðið sent og gerðu úr því frétt – og hugsanlega ritstjórar.
Þeir gætu náttúrlega tjáð dómnum með einhverjum hætti að Gísli sé saklaus. Það þyrfti ekki meira. Þeir þyrftu ekki að segja eitt einasta orð umfram það.