Í dag eru þingkosningar í Svíþjóð og er búist við því að vinstri menn komist til valda, hægri flokkarnir hafa verið við völd síðan 2006. Það er lengsta tímabil hægri stjórnar í Svíþjóð frá því snemma á síðustu öld.
Í gær mættust í kappræðum í sjónvarpi Fredrik Reinfeldt forsætisráðherra, leiðtogi Moderata samlingspartiet, og forsætisráðherraefnið Stefan Löfven, formaður Sósíaldemókrataflokksins.
Ef einhverjir bjuggust við því að þessar kappræður yrðu spennandi, þá urðu hinir sömu fyrir vonbrigðum. Í frétt Politiken í Danmörku segir að þeir hafi verið sammála um flest.
Þannig er pólitíkin í Skandinavíu – ekki jafn stríð og hér á Íslandi. Menn geta verið ósammála án þess að sé eins og ágreiningurinn snúist um himnaríki og helvíti, eins og einn vinur minn á Facebook orðar það.
Þó erum við laus við flokka eins og Svíþjóðardemókratana sem virðast ætla að fá allt að 10 prósenta fylgi í kosningunum. Bæði Reinfeldt og Löfven voru eru sammála um nauðsyn þess að standa gegn þessum skelfilega flokki.
Þess má svo geta að femíníski flokkurinn, Femininistiskt initiativ, fær ekki nema 2,2 prósent í skoðanakönnun sem Politiken vitnar í. Það er ekki nóg til að ná þingsæti, en til þess þurfa flokkar að komast yfir 4 prósent.
Stefan Löfven og Fredrik Reinfeldt.