Fátt var vinsælla hjá landanum í eina tíð en spænsku grísaveislurnar.
Íslendingar þyrptust í sólarferðir til Spánar – hápunktur þeirra var þegar farið var með ferðamennina í þorp þar sem voru haldnar grísaveislur, það var gnægð af ókeypis víni og grísir grilluðust á teini.
Margir urðu veikir af ofáti og ofdrykkju, en þetta þótti svo skemmtilegt að farið var að halda grísaveislur hér heima. Þær urðu fastir liðir í vetrarstarfi ferðaskrifstofa eins og Útsýnar og Sunnu.
Spánarfarar komu saman og rifjuðu upp minningar úr ferðum sínum yfir víni og grísakjöti. Á þeim árum var það reyndar fremur af skornum skammti á Íslandi, þjóðin var eiginlega ekki byrjuð að borða svín.
En nú eru breyttir tímar og við getum haft spænska grísaveislu allt árið, alveg eins og okkur lystir, líkt og sjá má á þessari mynd sem er úr Kvennablaðinu.