fbpx
Miðvikudagur 09.júlí 2025
Eyjan

Blæbrigðaríkari borgarpólitík – minni flokkspólitískur garri

Egill Helgason
Sunnudaginn 27. apríl 2014 12:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kosningabaráttan fyrir borgarstjórnarkosningarnar sem eru eftir mánuð fer hægt og nokkuð óvenjulega af stað.

Maður myndi eiginlega ekki lá borgarbúum þótt þeir vissu ekki af kosningunum.

Landslagið er gerbreytt. Þetta er hætt að vera spurning um Sjálfstæðisflokkinn og vinstri flokkana sem berjast um borgina. Það er liðin tíð – og fólk kærir sig heldur ekki um slíka pólitík í borginni.

Besti flokkurinn ruglaði systemið alveg – og Jón Gnarr sem varð borgarstjóri, hefði vel getað haldið áfram, en kaus að hætta af sjálfsdáðum.

Þar varpaði hann merkilegu ljósi á það hvað pólitík gengur út á – eða ætti að ganga út á. Jón hefði nær örugglega náð endurkjöri ef hann hefði farið fram.

Flokkapólitík hefur reynst vera algjörlega út úr kú í borgarmálum. Það sást greinilega á upplausninni sem var í borginni árin áður en Besti flokkurinn vann sinn sigur.

Besta flokknum tókst að koma á ró og hann tókst á við erfið verkefni sem þurftu úrlausnar: Orkuveituna og nýtt aðalskipulag. Það tókst að virkja borgarfulltrúa úr öðrum flokkum til góðra verka. Sjálfstæðisflokkurinn og VG voru með í að semja og samþykkja aðalskipulagið.

Niðurstaðan er afskaplega gott plagg – alvöru skipulagsstefna fyrir borgina næstu áratugina sem sérfræðingar, arkitektar og skipulagsfræðingar, ljúka lofsorði á. Aðalskipulagið er nú að koma út á bók hjá Crymogea – borgarbúar eru hvattir til að kynna sér það, sérstaklega þeir sem tala gegn því án þess að vita hvað þarna stendur.

Afleiðingin er að þessu er að illa gengur að koma pólitíkinni í borginni aftur í gamla farið.

Guðni Ágústsson ætlaði að reyna að finna nýja leið með því að bjóða fram Framsókn og flugvallarsinna. En það er dálítið stór biti fyrir gamlan stjórnmálaflokk, sem er sá næst stærsti á landsvísu og leiðir ríkisstjórn, að bjóða fram lista með einsmálsfólki. Það gengur eiginlega ekki. Eða sæju menn fyrir sér framboð Sjálfstæðisflokks og sundabrautarsinna?

Eins er það með Sjálfstæðisflokkinn, hann nær eiginlega engri málefnastöðu. Það er voða erfitt að lofa skattalækkunum en um leið aukinni þjónustu. Flugvallarmálið var tekið úr sambandi með samkomulagi við ráðherra úr Sjálfstæðisflokknum – auk þess sem innan frambjóðendahópsins ríkir ekki einhugur um það. Því er reynt að stökkva á smámál eins og skúrabyggð sem gæti hugsanlega verið fjarlægð í Vesturbænum og svo frasa eins og nú skuli þrengt að einkabílnum eða honum jafnvel útrýmt.

Þetta minnir á gömlu tímana þegar borgarstjórnarkosningar voru látnar snúast um mál eins og sprungusvæðið við Rauðavatn, Íkarusstrætisvagna eða framkvæmdir í Geldinganesi sem aldrei urðu.

En einhvern veginn er þetta ekki að gera sig. Borgarpólitíkin er orðin miklu blæbrigðaríkari en áður. Að nokkru leyti má þakka Besta flokknum fyrir það – honum tókst að vera valkostur við hinn flokkspólitíska garra. Og svo skiptir auðvitað máli að flokkshollustan er ekki jafn mikil og áður.

bokin-fhaus6

Nýja aðalskipulagið er mjög framsækið og vandað. Því miður eru margir að tjá sig um það sem hafa ekki einu sinni haft fyrir því að skoða það. Gísli Marteinn Baldursson skrifaði um aðalskipulagið sem hann vann lengi að: „Nýtt aðalskipulag Reykjavíkur var samþykkt samhljóða í Borgarstjórn nú síðdegis. Það er mikið ánægjuefni enda markar skipulagið tímamót. Hlustað er á óskir borgarbúa um þéttari byggð, minni bílaumferð, verslun og þjónustu inni í hverfunum, betri strætó, betri aðstæður gangandi og hjólandi og aukið framboð minni íbúða miðsvæðis. Þessar óskir hafa komið fram í fjölda kannana og í tillögum borgarbúa á opnum fundum úti í hverfunum á þessu kjörtímabili og síðasta.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Sundruð stjórnarandstaða – umboðslausir þingflokksformenn

Orðið á götunni: Sundruð stjórnarandstaða – umboðslausir þingflokksformenn
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Þinglok

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Þinglok
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Golfhöggið á Hönnu Katrínu geigaði – „Kannski komumst við í fyrramálið“

Golfhöggið á Hönnu Katrínu geigaði – „Kannski komumst við í fyrramálið“
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Svarthöfði: Óhamingjusamur málþófsmaður í prívat hagsmunagæslu

Svarthöfði: Óhamingjusamur málþófsmaður í prívat hagsmunagæslu
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Krónutjónið nemur 500 milljörðum árlega

Sigmundur Ernir skrifar: Krónutjónið nemur 500 milljörðum árlega
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Heillandi fól

Óttar Guðmundsson skrifar: Heillandi fól