Viðskiptaráð leggur áherslu á styttingu framhaldsskólans og skólagjöld.
Hvort tveggja má vel athuga.
Það er reyndar svo með framhaldsskólann að ungmenni eru misjafnlega lengi að ljúka honum, sumir geta tekið mjög langan tíma í áfangakerfi, aðrir bruna í gegn. Þetta verður þó að skoðast í samhengi við grunnskólann. Þar er veruleg þörf á breytingum, ef á að vera hægt að stytta framhaldsskólann er nauðsynlegt að skoða námsframvinduna í grunnskólum líka.
Og skólagjöld sem eru mestanpart fjármögnuð með auknum námslánum eru ekki góð hugmynd. Þau kalla til dæmis á kerfi styrkja sem góðir námsmenn geta sótt sér, en við höfum ekkert slíkt hér á landi.
En kannski ætti Viðskiptaráð að líta sér nær.
Samkvæmt McKinsey-skýrslunni, sem er algjört grundvallarplagg hvað varðar greiningu á íslensku samfélagi, er minnst framleiðni í verslun og fjármálaþjónustu á Íslandi.
Þar er óhagkvæmnin mest og ónýtt umframgeta.
Kannski ætti Viðskiptaráð að skoða þetta betur – um leið og við gleymum því heldur ekki að ræða skólamálin.