Alþingi Íslendinga ræddi í vikunni fríverslunarsamning við Kína.
Þetta hefur farið mjög lágt – það er semsagt að gerast að þetta risastóra mál er að fara í gegn án þess að það sé skoðað vandlega, fari í gegnum alvöru gagnrýna þjóðfélagsumræðu.
Eftir allt uppnámið í kringum Evrópusambandsumsóknina er stefnumótun í utanríkismálum Íslendinga í algjöru skötulíki. Það er hentistefnan ein sem ræður ferðinni. Endalausar boðsferðir íslenskra ráðamanna til Kína eru aldeilis að virka. Þar fá þeir trakteringar sem ekki bjóðast í lýðræðisríkjum.
Píratar eru eini stjórnmálaflokkurinn sem hafa reynt að efna til til alvöru umræðu um samninginn í þinginu, eins og sjá má hérna á vef þingsins. Þeir nefna meðal annars Tíbet.
Guðmundur Hörður skrifar um fríverslunarsamninginn undir yfirskriftinni Faðmlag Íslands og ofbeldismanna. Þetta er tímabær grein:
Það er fólkið á Alþingi sem veldur mér áhyggjum. Nú eru þingmenn allra flokka nema Pírata komnir á fremsta hlunn með að samþykkja fríverslunarsamning við kínversku kommúnistastjórnina. Stjórn sem viðurkennir ekki mannréttindi og meinar launafólki að stofna frjáls stéttarfélög, líkt og ASÍ bendir á í umsögn um samninginn. Amnesty International vitnar í sinni umsögn um ýmis mannréttindabrot sem kínversk stjórnvöld stunda, t.d. saksókn á hendur þeim sem mæla fyrir umbótum í mannréttindamálum, ofsóknir gegn lögfræðingum þeirra, víðtækt net fangabúða þar sem hundruð þúsunda einstaklinga eru vistaðir án réttarhalda og sæta pyntingum og nauðungarvinnu, sakborninga sem eru teknir af lífi án sanngjarnrar málsmeðferðar og nauðungarflutninga fólks af heimilum sínum.