

Þarna er merkileg ljósmynd sem sýnir þegar nútíminn hefur hafið innreið sína í Reykjavík. Þarna er nýbúið að malbika Hringbrautina með tveimur akgreinum. Það er nútímaleg borg sem birtist okkur þarna með breiðum götum, reisulegum húsum og hitaveitutönkum efst í Öskjuhlíðinni.
En bílaumferðin er sáralítil, einhvern veginn virkar myndin eins og hún sé tekin að morgni dags, en við sjáum að það er enn snjór í Bláfjöllunum.
Og við sjáum glöggt hver er stærsta breytingin á Reykjavík síðustu áratugina, það eru sama og engin tré, trjágróðurinn sem nú einkennir Hljómskálagarð og Öskjuhlíð er ekki sprottinn. Hvaða áhrif ætli gróðurinn hafi á veðurfarið í borginni – eins og til dæmis í óveðrinu um daginn, þegar vindar hvinu og gnauðuðu en var lítið að veðri innan gömlu borgarmarkanna.
Ljósmyndin greinilega tekin úr turninum á Þjóðminjasafninu. Safnið var flutt í húsið við Hringbraut 1950, myndin er líklega tekin um það leyti.
Eins og allir vita fer Hringbrautin alls ekki í hring, en upphaflega átti hún að vera hringvegur um borgina. Snorrabrautin var þá hluti af Hringbraut – ég þekki eldri borgarbúa sem enn tala um Snorrabraut sem Hringbraut.
Það er svo makalaust að hugsa til þess hvernig þetta svæði lítur út núna, með mörgum akbrautum, þvers og kruss – sem sumar eru hannaðar miðað við spítala sem hefur aldeilis orðið töf á að rísi.
Myndin birtist á vefsíðunni Gamlar ljósmyndir, en ekki kemur fram hver er höfundur hennar.
