
Ég heyri menn oft velta vöngum yfir því hvort ríkisstjórnin muni halda velli eftir næstu kosningar – tíminn líður hratt, nú er innan við eitt og hálft ár þangað til þær verða haldnar.
Þessar vangaveltur byggja á því að bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn myndu ná að sveifla sér upp í tæka tíð fyrir kosningarnar – kannski með fjáraustri úr opinberum sjóðum á kosningaárinu. Það getur orðið erfitt fyrir stjórnarflokkana að standast slíka freistingu.
Önnur breyta er náttúrlega innflytjendamálin, þau eru enn ekki farin að hafa nein áhrif að ráði á landsmálapólitíkina eins og hún er stunduð í gegnum stjórnmálaflokkana – ólíkt því sem er að gerast í nágrannalöndunum. Þetta kann auðvitað að breytast og hafa áhrif á hið pólitíska landslag.
Það er náttúrlega möguleiki Sjálfstæðisflokkurinn farið upp undir 30 prósent atkvæða og Framsókn yfir 15 prósent – þetta gæti dugað ef fylgi hinna dreifist mikið.
En það verður að segjast eins og er að eftir því sem skoðanakönnunum fjölgar á þessu kjörtímabili virðist þetta ólíklegra. Píratar halda enn fylgissveiflunni stóru sem byrjaði síðastliðið vor, í nýrri könnun MMR eru þeir með 35,5 prósent, þeir eru langstærsti flokkurinn níunda mánuðinn í röð, nú er staðan reyndar sú að stjórnarflokkarnir eru samanlagt með örlítið meira fylgi en Píratarnir.
Það reyndar stundum vera þannig að þegar Framsókn fer aðeins upp, þá fer Sjálfstæðisflokkur niður – flokkarnir eru semsagt að bítast um sama fylgið. Framsókn er með 12,9 en Sjálfstæðisflokkur með 22 prósent.
Stjórnarflokkarnir úr síðustu ríkisstjórn eru heillum horfnir eins og fyrr, hvor um sig með 9,4 prósent, en erindi Bjartrar framtíðar í pólitík virðist vera þrotið.
Nú stingur Róbert Marshall, þingmaður BF, upp á því á Facebook að einhverjir ótilgreindir flokkar bjóði fram saman í næstu kosningum, stilli upp listum og bjóði fram ríkisstjórn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur. Einhvern veginn virkar það hálf örvæntingarfullt:
Við sem aðhyllumst umbætur og alvöru aðgerðir á sviði umhverfis, jafnréttis, mennta- og heilbrigðismála þurfum að skipa okkur í sveit saman. Við þurfum að útbúa sameiginlega aðgerðaáætlun fyrir næstu kjörtímabil. Stilla sameiginlega uppá lista í öllum kjördæmum og stilla upp ríkisstjórn þar sem hæfileikar, bakgrunnur og verkefni ráða mannvalinu. Ég sé fyrir mér stjórn sem væri að mestu skipaða utanþingsráðherrum sem við kynnum fyrir kosningar og yrði leidd af Katrínu Jakobsdóttur. Verkefnin framundan eru risavaxin og munu reyna á okkur en við getum þetta. Það er von. Björgum Íslandi.