
Það virðist ekki vera hægt að horfa framhjá því að stjórnarskrárbreytingar eru brunnar inni enn einu sinni. Alþingi virðist einfaldlega ekki höndla að breyta stjórnarskránni og tilraunir til að útvista breytingum til sérstaks stjórnlagaráðs mistókust líka.
Eftir síðustu kosningar var ákveðið að fara aftur gömlu leiðina, með stjórnarskrárnefnd sem er skipuð fulltrúum stjórnmálaflokkanna. Slíkar nefndir hafa verið ansi margar í sögu lýðveldisins en þær réðu ekki við verkefnið.
Nú virðist manni að einkum séu tvær ástæður fyrir því að ekki tekst að koma tillögum úr stjórnarskrárnefnd, svo gegnum Alþingi og til þjóðaratkvæðagreiðslu.
Annars vegar andstaða Sjálfstæðisflokksins við auðlindaákvæði og hins vegar andstaða Ólafs Ragnars Grímssonar við breytingar á stjórnarskránni. Þessi andstaða forsetans hefur harðnað með árunum – og nú taka fylgismennirnir í hinum stóra forsetaflokki (sem spannar fleiri en einn stjórnmálaflokk) upp sömu línuna.
Þetta er dálítið ankanaleg staða, því ein stærsta breytingin sem þyrfti að gera á stjórnarskránni – og stóð til að gera – snertir vald forsetans. Ef komast inn í stjórnarskrá ákvæði um að ákveðinn fjöldi kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um mál er þjóðin sjálf í raun kominn með málskotsrétt í hendurnar – en nú er það einungis forsetinn sem hefur hann.
Um tíma var rætt um að greiða atkvæði um stjórnarskrárbreytingar meðfram forsetakosningum á næsta ári. Það virðist ekki ætla að verða. Málið frestast en eftir næsta sumar kemur kosningavetur og fremur ólíklegt að farið verði að kjósa um stjórnarskrárbreytingar þá.
Píratar munu þó væntanlega halda áfram að setja stjórnarskrármál á oddinn – hinir flokkarnir hafa klúðrað þeim svo rækilega að þeim fer það illa.