

Aðkomufólki þykir gamli bærinn í Reykjavík skrítinn og sjarmerandi, með sínum litlu, marglitu og dálítið sundurlausu húsum. Smátt og smátt held ég að við höfum líka farið að sjá bæinn með augum gestanna – Reykjavík er nú ein helsta ferðamannaborg á norðurhveli og hún hefur sinn sérstaka þokka.
Maður þakkar til dæmis fyrir að fyrirætlanir um niðurrif og stórbyggingar við Laugaveg urðu ekki að veruleika, slíkt var á döfinni þangað langt eftir aldamót og við erum reyndar ekki búin að bíta úr nálinni með þetta enn.
Hilmar Þór Björnsson arkitekt birtir þessa litlu færslu á Facebook og úrklippu úr Morgunblaðinu með.
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunnar að það eigi helst ekki að rífa neitt hús innan Hringbrautar í Reykjavík. Heldur eigi að endurbyggja þau þannig að þau henti nýrri starfsemi og nútíma kröfum á allan hátt. Nú á að rífa húsin á myndinni. Þetta eru ágæt hús sem fara vel í götunni og eru um 90 ára gömul. Sennilega víkja þau vegna leti arkitekta og græðgi fjárfesta svo stuðst sé við kenningar danska arkitektsins Jan Gehl.

Hér má sjá mynd af því sem á að byggja í staðinn. Þessar teikningar eru nú til sýnis í verslunarhúsnæði við Laugaveg, við hliðina á Vínberinu. Ég kíkti þangað inn áðan og segi eins er – ég hrökklaðist burt í skelfingu.
Þetta er raunar nákvæmlega það sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur varað við, frekjuleg hús sem þenja sig út til að skítnýta byggingamagnið – hús algjörlega án þokka, enda er ekki hugsað um neitt annað en nýtingarhlutfallið, hús sem falla mjög illa að umhverfi sínu, sögu þess og menningu.
