
Þau eru ögrandi orð tölvufræðingsins Úlfars Erlingssonar sem segir að íslenskan eigi stutt eftir. Einhvern veginn er erfitt að ímynda sér þann veruleika, okkur finnst líklega flestum sem eru komin á fullorðinsár að tungan dafni ágætlega í helstu samskiptum milli fólks.
En kannski má sjá þetta fyrir eins og veðraskil sem ganga yfir landið. Það er alls ekki þannig að heimur fari sérstaklega versnandi, en við gætum stefnt í tíma þar sem Íslendingar verða tvítyngdir um tíma – það endar varla með öðru en að sterkara tungumálið nær yfirhöndinni. Enska.
Tvítyngið verður fyrst á ákveðnum sviðum, ákveðnir hlutar veruleikans færast yfir á ensku, á enskt málsvæði. Ég heyri oft íslensk börn og ungmenni tala á milli sín á ensku, bæði er að þeim þykir íslenska hallærisleg og eins að þau finna ekki orðin sem þau leita að á íslensku, heldur grípa stöðugt til orða úr ensku sjónvarps- eða tölvuefni.
Yfir ungmenni hellist efni úr erlendum veitum, af Netflix, iTunes, YouTube. Ekkert af þessu er talsett á íslensku eða textað, en þau fara létt með að skilja það og líka hinar menningarlegu tilvísanir, þetta er veruleikinn sem þau lifa í. Þetta er dálítið annar heimur en á tíma Kanasjónvarpsins þegar fólk sat og horfði á móskulega mynd og skildi varla neitt sem sagt var. Menn héldu að þá væri íslenskunni ógnað – en það var líklega ekki rétt.
Þetta er líka ungt fólk sem er miklu óhræddara við að fara til útlanda í leit að menntun og upplifunum en fyrri kynslóðir, það hefur enga komplexa gagnvart því að búa erlendis – þjóðerniskendinn er ekkert að drepa það. Skoðanakannanir hafa sýnt að meirihluti íslenskra ungmenna vill gjarnan búa annars staðar en hér.
Fyrir hrun voru peningaöflin í landinu beinlínis farin að leggja til að hér yrði tekin upp enska. Íslenskan væri beinlínis til trafala. Íslenskan er náttúrlega ríkur partur af þjóðarvitundinni – sérstöðu sem kann að gefa okkur ákveðinn kraft – en það er auðvitað spurning hvernig hún stenst þrengstu mælikvarða um hagkvæmni.
Bókaútgefandinn Kristján B. Jónasson skrifar á Facebook:
Mér finnst alltaf merkilegt að stjórnmálamenn, sem í raun eru aðeins valdamenn vegna tungumálsins, sem er grunnur þjóðríkisins, skuli vera jafn fálátir um íslenskuna. Þetta mál ætti að vera helsta baráttumál fólks í öllum stjórnmálaflokkum.
Lykilatriði er að enginn sinnir íslenskunni nema við Íslendingar. Við þurfum sennilega að leggja enn meiri vinnu í að viðhalda henni en áður – það þýðir meiri orka og meira fé í íslenskukennslu,og kannski líka frjórri kennsla í málinu, þýðingar á íslensku, textun og talsetningu sjónvarpsefnis, framleiðslu innlends fjölmiðlaefnis, í starf sem miðar að því að íslenskan verði gjaldgengt tölvumál, líka þegar tölvurnar eru farnar að tala, í menningarstofnanir sem starfa á íslensku og í íslenskar bókmenntir.
Hækkaðir skattar á íslenskar bækur og niðurskurður til Ríkisútvarpsins eru skrítin skilaboð þegar svona árar fyrir tunguna.
Þetta er ekki einfalt verkefni – en það hefur náttúrlega verið mikil varðstaða um íslenskuna allt frá tíma Rasmusar Christians Rask. Þessi varðstaða verður ekki auðveldari á 21. öldinni, við lifum tíma sem eru í raun fjandsamlegir örmálum eins og íslensku. Við höfum val, en það kostar bæði fé og fyrirhöfn.