

Er sjálfsdýrkun að ganga af listaheiminum dauðum? Í verkum þar sem listamaðurinn sjálfur er í miðjunni, hann er aðalatriðið, viðfangið, já, verkið sjálft – list sem er eins og útblásnar selfie-myndir?
Undanfarið hafa birst tvær greinar á Artnet News þar sem þessu er haldið fram. Vísað er meðal annars í gjörninga listakonunnar Marinu Abramovic sem er kölluð „drottning gjörningalistarinnar“ – sem í annarri greininni sem er eftir J.J. Charlesworth eru sýningar hennar í New York og London kallaðar fáránlegar, nútímaleg útgáfa af sjálfshjálp sem hipsterar hafi staðið í löngum röðum til skoða.

Það sé ekki nýtt að listamenn hafi stór egó, en í báðum greinunum er fjallað um fyrirbærið narkissisma, sjálfsástina, Narkissos var goðsöguleg vera sem horfði svo lengi á sjálfsmynd sína í spegli vatns að hann drukknaði.
Síðari greinin er eftir Christian Viveros-Fauné, hún birtist í fyrradag. Þar er beinlínis talað um faraldur narkissisma sem tröllríði listinni, og sett í samband við allar þær sjálfsmyndir og sjálfsdýrkun sem er að finna á samskiptamiðlum. Höfundurinn veltir því líka fyrir sér hvort von sé á góðu þegar notaðar eru skilgreiningar á list eins og þessi, sem er komin frá félagsfræðingnum Howard Becker:
Ef maður fremur list, hlýtur maður að vera listamaður. Og þarafleiðandi, sé maður listamaður, hlýtur það sem maður gerir að vera list.
Virkar eins og ákall á uppblásin egó og narsíssiska persónuleikaröskun, segir greinarhöfundur. Hann nefnir líka Abramovic og svo Chris Burden sem skaut sig í hendina og krossfesti sig á bílhúddi í nafni listarinnar, en að auki gjörning leikarans Shia Labeouf þar sem hann situr í kvikmyndahúsi í 72 klukkutíma, horfir á myndir og maular popp ásamt fleiri áhorfendum.

Það verður seint sagt að gjörningur listnemans íslenska sem lokar sig inni í búri sé sérlega frumlegur, þetta hefur verið gert áður eins og svo margt annað í okkar heimi og oftar en einu sinni eða tvisvar – en hann er ágætt tilefni til að ræða stefnur og strauma í myndlist sem er satt að segja ekki alltof algengt núorðið.
