„Mér finnst hún ekki hafa notið sannmælis,“ sagði Bjarni Benediktsson verðandi forsætisráðherra þegar hann var spurður um fráfarandi ríkisstjórn í beinni útsendingu á Bylgjunni frá Bessastöðum en þar var haldinn síðasti ríkisráðsfundur ríkisstjórnarinnar í hádeginu og lauk honum rétt í þessu. Allir ráðherrar mættu til hádegisverðar með forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni. Klukkan hálf tvö mætti síðan ný ríkisstjórn á Bessastaði og tók við stjórn. Bjarni bætti því við í samtalinu að hann teldi að sagan myndi dæma fráfarandi ríkisstjórn vel.
Bjarni Benediktsson sagði að ágætlega hafi verið tekið í ráðherraskipan ríkisstjórnarinnar sem hann lagði fram á fundi í Valhöll í gær og hefur Páll Magnússon, þingmaður og oddviti sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, sagt í dag að hann styðji hana ekki en enginn ráðherranna er úr Suðurkjördæmi.
Bjarni sagði að vissulega hefðu verið deildar meiningar um skipunina en hún hefði hlotið brautargengi.
„Ég vil fyrst og fremst vera með fulla starfsorku,“ sagði Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fráfarandi ráðherra, þegar hún var spurð að því hvort hún væri óánægð með að vera ekki ráðherra í nýrri ríkisstjórn. „Ég held að allir skilji það.“ En Ólöf er að glíma við krabbamein.
Ásta Helgadóttir, þingmaður Pírata, sagði um nýju ríkisstjórnina: „Ég verð að vera svolítið efins, sérstaklega þarsem við kusum útaf því að forsætisráðherra var í Panamaskjölunum og núna fáum við annan sem var líka í þeim. Ríkisstjórnin byrjar á völtum fótum.“
„Vantar framsýni, það er eiginlega ekkert um ferðaþjónustu í stjórnarsáttmálanum,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir fráfarandi ráðherra á Bessastöðum í dag.
Katrín Jakobsdóttir, þingmaður og formaður Vg, vildi meina að ekki væri minnst á húsnæðismál í stjórnarsáttmálanum og sagði að það væri ekki sterk áhersla á velferðarmál í honum.
Gunnar Bragi Sveinsson, fráfarandi ráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins sagði stjórnarsáttmálann ekki merkilegt plagg. Hann lofaði því einnig að veita ríkisstjórninni mikið og gott aðhald á kjörtímabilinu.
Börkur Gunnarsson