„Það er nokkuð athyglisvert að Viðreisn skuli hafa samþykkt sáttmálann og virðist svona hoppandi kát með þetta allt saman,“ skrifar Kolbeinn Óttarsson Proppé þingmaður Vinstri grænna á bloggsíðu sína í tilefni af því að ný ríkisstjórn er að taka við í landinu.
„Það er ekki langt síðan flokkurinn reyndi að kenna Vinstri grænum um að upp úr fimm flokka viðræðunum hefði slitnað vegna þess að ekki náðist að semja við okkur um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál, ekki bara einu sinni, heldur tvisvar. Reyndi að kenna um, segi ég, einmitt vegna þess að þetta var tilraun til þess að hagræða sannleikanum og koma sökinni á aðra. Allt of mörg gleyptu við þessu,“ skrifar Kolbeinn.
Síðar í pistli sínum skrifar hann:
Sjávarútvegsmálin voru, í orði, forgangsmál Viðreisnar í kosningabaráttunni. Kerfisbreytingar var orðið. Ekki er annað að sjá að engar kerfisbreytingar verði hjá nýju ríkisstjórninni. Ekki verður hróflað við kvótakerfinu, þó kannski verði einhverjar lagfæringar gerðar. Þetta er verri samningur en náðst hafði í fimm flokka viðræðunum, þar sem samstaða hafði náðst um innköllun veiðiheimilda. Aðeins átti eftir að semja um hvernig endurúthlutuninni yrði háttað.
Þá bendir Kolbeinn háðslega á að í stjórnarsáttmálanum sé ákvæði um að endurskoða eigi landbúnaðarmálin en það sé reyndar bundið í lög að svo eigi að gera á næstu þremur árum. Þessvegna sé sigur Viðreisnar í stjórnarmyndunarviðræðum að ná þessu í gegn frekar vafasamur.
Hann segir einnig frá því að í fimm flokka viðræðunum hafi verið samstaða um að fara í heildarendurskoðun á landbúnaðarkerfinu.
Kolbeinn vill meina að það hafi verið fullkominn fyrirsláttur hjá Viðreisn að fimm flokka viðræðurnar hafi strandað á sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. „Þær strönduðu nefnilega á ríkisútgjöldum og tekjuöflun. Þar stóð Viðreisn þvert gegn hugmyndum um aukna tekjuöflun ríkisins, ekki síst hækkun á sköttum á þá sem best standa.“
Svo skrifar Kolbeinn:
Nýi stjórnarsáttmálinn er fullkominn sigur fyrir Viðreisn, því að raunverulegt hlutverk flokksins var ekki að standa fyrir kerfisbreytingum heldur einmitt öfugt, að standa varðstöðu um skattkerfið eins og það er. Það tókst fullkomlega, enda mikill samhljómur með Sjálfstæðisflokknum hvað það varðar og Björt framtíð fylgdi með. Þessi ríkisstjórn hefur legið í loftinu frá því daginn eftir kjördag og litað allar aðrar viðræður. Vonandi hættir fólk nú að gleypa hráan áróður um að allt þetta sé nú á einhvern hátt Vinstri grænum að kenna. Markmiðið hjá Viðreisn virðist alltaf hafa verið að fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og það tókst.
Aðrir sjá ríkisstjórnina með öðruvísi gleraugum, þannig skrifar blaðamaðurinn Jakob Bjarnar Grétarsson á fésbókarsíðu sína:
Þvílíkur snillingur sem Bjarni Ben er. Skv fréttum þá þurfti Sjálfstæðisflokkurinn ekki að bakka með eitt né neitt; ekki sægreifasystemið, ekki landbúnaðar/byggðastefnudæmið sem kyrfilega var fest í sessi til næstu 10 ára, ekki einu sinni sín eigin sviknu loforð um kosningar í ESB-viðræðum — heldur meira að segja múlbatt Viðreisn og BF í þeim efnum. Bjarni hlýtur að fara í bækur Valhallar sem einn mikilhæfasti stjórnmálamaður sögunnar. (Eins gott fyrir Viðreisn og BF að njóta þess að vera á þingi — ekki víst að þeir verði margir slíkir dagar í boði eftir næstu kosningar.)
Börkur Gunnarsson