„Þessi ríkisstjórn fær í vöggugjöf á margan hátt góðar ytri aðstæður,“ sagði Bjarni Benediktsson verðandi forsætisráðherra nýrrar ríkisstjórnar.
Í dag klukkan 14:30 í Gerðarsafni í Kópavogi var kynntur stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar og þar kom fram að Bjarni Benediktsson taldi að ekki eigi að gera lítið úr því hverskonar áskorun það sé að taka við búi sem sé gott. Það er hreint ekki sjálfgefið að þannig verði hlutirnir áfram.
Á fundinum var spjallað um að það væri búið að vinna vel í haginn fyrir farsæla og frjálslynda ríkisstjórn. Fjölbreytni í stofnunum samfélagsins yrði rík og að lögð verði áhersla á uppbyggingu innviða samfélagsins á næsta kjörtímabili einsog til dæmis heilbrigðiskerfisins.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, sagði í ræðu sinni að kannski væri það styrkleiki að stjórnin hefði aðeins eins manns meirihluta. En flestir hafa talið það veikleika nýju stjórnarinnar að hún hefur aðeins 32 þingmenn á bakvið sig sem þýðir eins manns meirihluta. En svo tæpur meirihluti ríkisstjórnar þýðir að líklega verði að vera meira samstarf milli meirihluta og minnihluta en hefur þekkst fram að þessu. Samkvæmt Óttarri Proppé að þá er kannski styrkleiki í því.
Í þessari ríkisstjórn mun Sjálfstæðisflokkurinn fara fyrir ferðamálum, menntamálum og forsætisráðuneytið sjálft verður í höndum þeirra. Fjármálaráðuneytið og atvinnuvegamálaráðuneytið verður í höndum Viðreisnar. Heilbrigðismálahluti Velferðarráðuneytisins og Umhverfismálaráðuneytið verður í höndum Bjartrar framtíðar.
Börkur Gunnarsson