Ráð hinna nýju stjórnarflokka hittust í kvöld og fréttir hafa borist af því að bæði ráðgjafaráð Sjálfstæðisflokksins og ráð Viðreisnar hafi samþykkt stjórnarsáttmálann. Þótt menn hafi verið óánægðir með ýmislegt í stjórnarsáttmálanum að þá var hvorugur flokkurinn það óánægður að samningurinn færi ekki í gegn.
Fundi Viðreisnar lauk rétt fyrir klukkan tíu í kvöld með dynjandi lófaklappi. Fundi flokksráðsins hjá Sjálfstæðisflokknum lauk klukkan rúmlega níu í kvöld þarsem menn virtust allir sammála. Í það minnsta var stjórnarsáttmálinn samþykktur einróma.
Í viðtali Bjarna Benediktssonar við mbl.is segir svo frá:
Spurður um ráðuneyti sagði Bjarni að sjálfstæðismenn hefðu áður kallað eftir sérstöku dómsmálaráðuneyti en það yrði svo önnur ákvörðun hvort sérstakur ráðherra yrði settur yfir það. Hvað ráðherramálin sjálf varðaði myndi hann ræða það í þingflokki sjálfstæðismanna annað kvöld. Spurður um stjórnarsáttmálann sagði Bjarni hann nokkuð víðfeðman og þar væri að finna ágætisjafnvægi á milli flokkanna. Sáttmálinn yrði kynntur á morgun.
Spurður hvort það væri áhyggjuefni að fulltrúar á landsbyggðinni hefðu hugsanlega ekki komist á fundinn vegna skamms fyrirvara sagði Bjarni: „Við reyndum að gefa eins mikinn fyrirvara og aðstæður leyfðu. Við höfum ekki fengið mikið af kvörtunum vegna þessa en það er alltaf reynt að taka tillit til þessa og meðal annars þess vegna höfðum við fundinn að kvöldi til í dag.“ Spurður hvort margir hafi tekið til máls til þess að gagnrýna sáttmálann sagði Bjarni aðeins tvo hafa gert það en almennt hafi komið fram ánægja með niðurstöðuna.
Stjórn Bjartrar framtíðar samþykkti líka stjórnarsáttmála fyrirhugaðrar ríkisstjórnar eftir ansi langan fund í kvöld en hann var bara að klárast í þessu, rétt fyrir klukkan ellefu á mánudagskvöldi. Fundurinn var haldinn í menningarmiðstöðinni Gerðubergi.
Börkur Gunnarsson