Samkvæmt fréttum Bylgjunnar og RÚV að þá virðist engin lausn í sjónmáli í sjómannaverkfallinu. Sjómenn héldu samstöðufund sjómanna fyrir utan hús Ríkissáttasemjara í dag og var vel mætt.
Samkvæmt sex fréttum Rásar 1 virðast deiluaðilar ekki vera að ná saman. Talsmenn útgerðarinnar hafa látið hafa eftir sér að tap hennar sé uppá milljarða króna, nú þegar.
Einn af þeim sem mættu á mótmælin var rapparinn Erpur Eyvindarson. Þorvaldur Arnarsson, blaðamaður fjallaði um málið á Mbl.is og þar lét hann Erpur hafa eftir sér: „Ég er mættur, eðlilega. Hryggjarstykkið í efnahagslífi okkar Íslendinga er hér mætt holdi klætt og ef einhver á skilið að fá sanngjörn laun eru það mennirnir sem hírast úti á ballarhafi í 30-40 daga í senn til að styðja við þjóðarbúið. Þetta eru menn sem ég get peppað alla leið, og ekki bara af því að ég á ættir að rekja vestur á firði í alla mögulega ættliði, heldur vegna þess að þetta er réttlætismál. Þetta eru bara hetjur og þeir eiga að fá mannsæmandi laun.“
Hefur gríðarleg áhrif á samfélagið
Þátturinn Bryggjan á sjónvarpsstöðinni Hringbraut fjallar í kvöld um sjómannaverkfallið sem hófst 14. desember síðastliðinn. Sáttafundur var haldinn í Karphúsinu í gær og skilaði ekki neinu.
Þessi pattstaða hefur gríðarleg áhrif á fiskvinnsluna, útflutning og markaði erlendis.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna í Norð Vesturkjördæmi, þar sem sjávarútvegurinn er stærsta atvinnugreinin fer yfir stöðuna í þættinum á Hringbraut í kvöld. Lilja Rafney hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir ríkið og er einnig sjómannsdóttir að vestan. Það er deilt um kostnaðinn sem er deilt á milli útgerða og sjómanna, þeir hafa verið samningslausir í sex á rog hefur varaformaður sjómannasambandsins sagt uppsafnaða gremju vera í stéttinni.
Umsjónarmenn Bryggjunnar eru Linda Blöndal og Sölvi Tryggvason.
Börkur Gunnarsson