„Svo virðist sem myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Bjartrar og Viðreisnar sé langt komin. Á síðustu metrunum glittir þó í tilraun vinstri- og félagshyggjuflokka til að spilla brullaupinu með sameiginlegu bónorði til Bjarna. Það er fullseint í rass gripið og undirstrikar vandræðaganginn hjá burðarflokkum vinstri vængsins – þó ekkert beri að útiloka.“
Þannig hefst pistill Össurar Skarphéðinssonar fyrrverandi þingmanns og ráðherra Samfylkingarinnar á Fésbók í dag. Hann segir tæknilega erfitt fyrir Sjálfstæðisflokkinn, Viðreisn og Bjarta framtíð að mynda ríkisstjórn, en þó ekki ókleift. Forvitnilegt sé nú í upphafi árs að velta fyrir sér lífslíkum stjórnarinnar:
Hluti af vinstri vængnum mun bylgjast af vandlætingu í garð Óttarrs Proppé og Bjartrar framtíðar fyrir að hafa gengið til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Þegar glittir í svikabrigslin hjá mörgum sem eðlilega leyfðu sér að dreyma um miðju-vinstristjórn einsog úrslit kosninga kölluðu eiginlega á.
Það er h.v. giska erfitt að bera svik á Óttarr með málefnalegum rökum. Fyrsta tilraunin til að mynda þá stjórn, sem nú er í burðarliðnum, strandaði á því að hann stóð á ákveðnum prinsippum – og kom eiginlega helgur maður út úr þeim darraðardansi. Sé að marka Fréttablaðið er nú hugsanleg landsýn varðandi þau hin sömu mál, t.d. Evrópu og landbúnað. Það verður heldur ekki af Óttarri skafið að hann gerði heiðarlega og einarða tilraun til að stuðla að miðju-vinstri stjórn, og dró að því borði félaga sína í Viðreisn. Þar hélt hann þeim „to the bitter end“ – þó strok væri í augum Engeyjar.
Vinstri vængurinn missti af gullnu tækifæri
Vinstri vængurinn, einkum Vinstri grænir, geta sjálfum sér um kennt, segir Össur. Besta vitni þess sé Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata sem reyndi að mynda fimm flokka stjórn:
„Hún sagði umbúðalaust við lok þeirrar tilraunar að VG hefði ákveðið að „draga fram sleggjuna og lemja sundur brúna“ sem Píratar höfðu að hennar mati byggt milli flokka. Sú sjóferð endaði því á skeri VG að mati viðræðustjórnandans. .
Ysta vinstrið glataði þannig sögulegu tækifæri til að gera vinsæla og reynda stjórnmálakonu að forsætisráðherra í ríkisstjórn sem hafði hjartað vinstra megin og líklegt til að slá með góðum sósíaldemókratískum takti. Það tækifæri hljóta margir að gráta beiskum tárum ekki síst í ljósi þess að sú ríkisstjórn hefði tekið við í góðæri og efnhagsvísar eru með þeim hætti að líklega hefði hún getað leiðrétt alvarlegar kompásskekkjur liðinna ára. Vinstri vængurinn undir forystu VG missti af gullnu tækifæri til að mynda ríkisstjórn sem hefði getað rétt hlut hópa sem sannanlega hafa legið hjá garði.“
Fjárlögin verða prófsteinn á lífslíkurnar
Össur segir mjög erfitt að reka ríkisstjórn með eins þingmanns meirihluta, en það hafi tekist áður. Viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks hafi meðal annars lifað af þegar Eggert G. Þorsteinsson heilbrigðis- og sjávarútvegsráðherra greiddi atkvæði gegn stjórnarfrumvarpi:
Afdrif ríkisstjórnar Bjarna, Óttarrs og Benedikts munu ráðast mjög af því hverjar viðtökur hún fær strax í upphafi. Fyrstu leiftur af stefnu hennar benda til að hún gæti komist klakklaust gegnum fæðingarhríðirnar og siglt vel fram að fyrstu fjárlögum.
Fjárlögin verða hins vegar prófsteinn á lífslíkur hennar. Stjórn með svo nauman meirihluta býr alltaf við þann háska að verða leiksoppur kjördæmapotara, og víst er að landsbyggðarþingmenn munu selja sig dýru verði strax í fyrstu fjárlögum.
„Tæknilega verður það erfitt – en ekki ókleift“
Það geti hentað að fá fjórða flokkinn inn í stjórnina á þessu ári, við fyrstu sýn mætti ætla að Framsóknarflokkurinn kæmi til greina, en ef marka megi Fréttablaðið í dag um áherslur nýju stjórnarinnar í Evrópu- og landbúnaðarmálum, þá sé sá kostur varla inni í myndinni. Ríkisstjórnin gæti telft upp á stuðning einstakra flokka í erfiðum málum, Samfylkingin og Píratar gætu varla annað en stutt þingmál um þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB og breytingar á landbúnaðarkerfinu. Framsóknarflokkurinn gæti að sama skapi notað tækifærið og undirstrikað ábyrga stefnu flokksins í ríkisfjármálum:
Hörð og samstíga stjórnarandstaða getur ráðið miklu um langlífi nýrrar stjórnar. Eftir hið beiska skipbrot varðandi myndun miðju-vinstri stjórnar er ekki endilega víst að á þeim bæjum taki menn upp samræmt göngulag fornt í stjórnarandstöðu. Ný ríkisstjórn mun fá andrými meðan stjórnarandstaðan reynir að splæsa sig saman – sem alls ekki er víst að takist sérlega vel.
Ný ríkisstjórn mun alla vega þurfa að hafa gríðarlegan aga á öllum þingmönnum sínum, og verða þar að auki að beita macchiavellískri snilld við að leika á andstæður innan stjórnarandstöðuflokkanna til lifa af.
Tæknilega verður það erfitt – en ekki ókleift.