Björn Valur Gíslason varaformaður Vinstri grænna segir það eðlilegt að stjórnmálamenn leiti nýrra leiða nú þegar rúmir tveir mánuðir eru liðnir á kosningum og vísar hann til frétta af viðræðum Katrínar Jakobsdóttur formanns VG við Framsóknarflokkinn og Samfylkingu um félagslegar áherslur sem flokkarnir þrír geti sameinast um í stjórn eða stjórnarandstöðu. Katrín sagði ótímabært að svara spurningum um hvort VG, Framsókn og Samfylking stefndu á stjórnarmyndunarviðræður en Björn Valur segir eðlilegt að leitað sé nýrra leiða til að koma saman ríkisstjórn:
Það er líka í anda niðurstaða kosninganna.
Þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB-aðild ekki í hag Sjálfstæðisflokksins
Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Björt framtíð hefja í dag aðra tilraun til myndun ríkisstjórnar, viðræður flokkanna, sem hefðu einungis eins þingmanns meirihluta, strönduðu síðast á Evrópu- og sjávarútvegsmálum. Í Fréttablaðinu í dag er greint frá því að þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands verði í stjórnarsáttmálanum. Morgunblaðið hefur eftir Gunnlaugi Snæ Ólafssyni formanni utanríkismálanefndar Sjálfstæðisflokksins að slík þjóðaratkvæðagreiðsla sé andstæð stefnu flokksins:
Sjálfstæðisflokkurinn myndi eingöngu krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu ef það ætti að sækja um aðild að nýju. Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði ekki að hafa frumkvæði að því að sækja um að nýju því hann er andsnúinn því að ganga í Evrópusambandið. Þetta er ákveðin mótsögn ef slík atkvæðagreiðsla ætti sér stað,
segir Gunnlaugur. Ef það sé rétt að þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að ESB sé í stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hafi það í för með sér vandamál og það sé alveg ljóst að flokksmenn og kjósendur hafi ekki áhuga á því:
Þetta er ákveðinn pólitískur ómöguleiki. Það er til að mynda út af þessu máli sem það er stjórnarkreppa. Í raun og veru væri þessi niðurstaða ekki í hag Sjálfstæðisflokksins og ekki í anda stefnu flokksins.