„Ég ætla ekkert að bregðast við þessu. Hvernig á maður að muna það sem gerðist fyrir svona mörgum árum? Ég bregst bara ekki við þessu,“
sagði Valgerður Sverrisdóttir fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra í samtali við Fréttablaðið í dag þegar hún var spurð um fundinn sem Benedikt Sigurðarson greindi frá í gær. Líkt og Eyjan greindi frá sagði Benedikt að hann hafi fundað með Valgerði árið 2003 og greint henni frá því að franski bankinn Société Générale hefði aldrei haft í hyggju að fjárfesta í Búnaðarbankanum og að þóknunargreiðsla til bankans frá Samvinnutryggingum hafi verið send til félags í Lúxemborg í eigu Ólafs Ólafssonar. Sagði Benedikt að Valgerður hafi skellt hurðum á þá.
Illugi Jökulsson rithöfundur segir að tvennt komi til greina, annað hvort sé Valgerður að ljúga eða að hún hafi verið vanhæf til að gegna ráðherraembætti:
Nú er mér nóg boðið. Látum vera þó hún segist ekki hafa haft hugmynd um „lundafléttuna“,
segir Illugi í pistli á Stundinni og vísar til fléttu Ólafs Ólafssonar við kaupin á Búnaðarbankanum, Illugi bætir við:
En að viðskiptaráðherra Framsóknarflokksins í miðju mikilvægasta verkefni Framsóknarflokksins MUNI ÞAÐ EKKI að nokkrir fulltrúar Framsóknarflokksins hafi komið á fund og lýst efasemdum um siðferði annarra Framsóknarmanna – nei, Valgerður, þú fyrirgefur fjórtán sinnum, en ég kaupi ekki slíkt minnisleysi!