Stúdentaráð Háskóla Íslands leggst alfarið gegn því að framlögð fjármálastefna til ársins 2022 verði samþykkt í óbreyttri mynd og harmar stúdentaráðið stöðu Háskóla Íslands í áætluninni. Í fréttatilkynningu frá SHÍ segir að fulltrúar allra flokka á Alþingi hafi lýst því yfir í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga að Ísland skyldi stefna að meðaltali OECD-ríkjanna í fjárframlögum til háskólakerfisins á hvern háskólanema á kjörtímabilinu. Staðfesti Alþingi fjármálaáætlunina óbreytta sé ljóst að því markmiði verður ekki náð.
Stúdentaráð telur jafnframt villandi að með framlögum til háskóla séu talin framlög til byggingar Húss íslenskra fræða, en viðbótarframlög til háskólastigsins munu að mestu leyti renna í þá framkvæmd fram til ársins 2020.
Í ályktun rektora allra háskóla á Íslandi frá 14. desember síðastliðnum kom fram að til þess að sinna grunnstarfsemi háskólanna þurfi að auka framlög til háskólakerfisins um tvo milljarða á ári næstu árin. Segir SHÍ að áætlunin feli í raun í sér frekari aðhaldskröfur til háskólanna:
Það setur samkeppnishæfni íslenskra háskóla og íslensks samfélags á alþjóðavettvangi í hættu. Öflugir háskólar eru grundvöllur framþróunar, nýsköpunar og sérhæfingar í hverju samfélagi og krefst Stúdentaráð þess að alþingismenn standi við gefin loforð um fjármögnun íslensks háskólakerfis.