Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem tóku þátt í könnun fyrirtækisins Zenter vilja að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, verði næsti forsætisráðherra.
Stuðningshópur Katrínar lét fyrirtækið gera könnun um viðhorf landsmanna til þess hver ætti að verða næsti forsætisráðherra.
Könnunin sem um ræðir var gerð dagana 10. til 21. nóvember síðastliðinn og var úrtakið 2048 manns. Spurt hvar: „Hvern eftirfarandi myndir þú vilja sjá sem næsta forsætisráðherra Íslands?“ og gátu svarendur valið úr hópi forystumanna íslenskra stjórnmálaflokka.
Af þeim sem tóku afstöðu vildu 49,5% svarenda sjá Katrínu Jakobsdóttur sem næsta forsætisráðherra en næst á eftir vildu 20,5% sjá Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins og svo 10,2% Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins.
Aðrir forystumenn fengu minna en 10%; Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (7,6%), Logi Einarsson (5,5%), Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (3,1%), Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (2,0%) og Inga Sæland (1,7%).
Um var að ræða netkönnun meðal könnunarhóps Zenter rannsókna. Svarendur voru 1.061 og var svarhlutfall því 52%.