
Þegar kemur að Donald Trump Bandaríkjaforseta, getur reynst erfitt að úrskurða um hvort tístin hans á Twitter séu skrifuð í alvöru eða gríni, svo ótrúleg geta þau verið. Í nótt tísti Trump um hnattræna hlýnun, fyrirbæri sem hann trúir álíka mikið á og jólasveininn, eða auðmýkt.
Trump sagði:
„Á Austurströndinni stefnir í kaldasta gamlárskvöld frá upphafi mælinga. Máske gætum við nýtt gömlu góðu hnattrænu hlýnunina sem landið okkar, en ekki önnur lönd, ætlaði að borga TRILLJÓNIR DOLLARA til verndunar gegn. Klæðið ykkur vel !“
Ekki hafa fengist svör frá talsmanni Hvíta hússins hvort tíst Trump sé yfirlýst stefna ríkisstjórnar hans um hnattræna hlýnun, en hingað til, ótrúlegt en satt, hafa svör talsmanna forsetans einmitt verið á þá leið, að tíst hans séu opinber stefna Bandaríkjanna.
Til gamans má geta, að árið 2016 var það heitasta frá upphafi mælinga á jörðinni og allt stefnir í að metið falli 2017. Yrði það hækkun á hitastigi jarðar fjórða árið í röð. Sérfræðingar CNN fréttarisans sögðu af þessu tilefni, að svo virtist sem að forsetinn áttaði sig ekki á muninum á lofslagi eða veðurfari annarsvegar og veðrinu frá degi til dags hinsvegar.