
Ný könnun MMR leiðir í ljós að stærstur hluti landsmanna muni gæða sér á hamborgarhrygg á aðfangadag, eða 47 prósent. Í öðru sæti er lambakjöt (annað en hangikjöt) en 13% landsmanna ætla sér að hantera það. Þetta kemur fram í tilkynningu. Kalkúnn eða rjúpur verða á borði rúmlega 8% landsmanna hvort um sig, 5% ætla að borða nautakjöt og um 3% önd. Tæplega 15% munu hafa aðra rétti en fyrrgreinda á boðstólnum á aðfangadag.
Skipting eftir stjórnmálaskoðunum
Lambakjöt nýtur meiri vinsælda sem aðalréttur á aðfangadag meðal stuðningsfólks Framsóknarflokks heldur en stuðningsfólks annarra flokka. Af þeim sem tóku afstöðu og studdu Framsóknarflokk sögðust 20% ætla að borða lambakjöt (annað en hangikjöt) sem aðalrétt að aðfangadag. Rjúpur verða hvað helst á borðum hjá stuðningsfólki Miðflokksins (20%) og af þeim sem styðja Flokks fólksins sögðust heil 72% ætla að borða hamborgarhrygg á aðfangadagskvöld. Stuðningsfólk Pírata var líklegra en stuðningsmenn annarra flokka til að ætla að borða annað en það sem talið var upp í könnuninni.
Munur milli hópa á því hvað fólk ætlar að borða á aðfangadag
Íbúar á landsbyggðinni eru mun líklegri til að borða lambakjöt á aðfangadag (16%) heldur en íbúar höfuðborgarsvæðisins (6%). Einnig eru íbúar landsbyggðarinnar (50%) ívið líklegri en íbúar höfuðborgarsvæðisins (45%) til að borða hamborgarhrygg á aðfangadag. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu eru aftur á móti miklu líklegri til að kjósa kalkún á sinn disk á aðfangadag (10%) heldur en íbúar á landsbyggðinni (5%).
Nokkur aukning reyndist á fjölda þeirra sem ætla að borða lambakjöt (annað en hangikjöt) á aðfangadag, eða um rúm 3 prósentustig. Breytingar á fjölda þeirra sem hyggjast borða aðra rétti reyndust óverulegar og ljóst að hefðir og venjur skipta miklu máli þegar kemur að vali á veisluföngum á aðfangadag.
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 923 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 12.-15. desember 2017