Samkvæmt erindi sem sex stjórnamálaflokkar á Alþingi standa að, er fyrirhugað að „leiðrétta“ fjárframlög ríkisins til stjórnmálaflokka í einu stökki, en hækkunin nemur 127 prósentum ef af verður. Píratar og Flokkur fólksins standa utan við erindið. Þetta kemur fram á Kjarnanum.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði við Eyjuna að ekki gengi að hækka framlögin svo skart:
„Við vorum hluti af vinnunni og greiningunni við þetta málefni, en lokatillagan, þessi leiðrétting í einu skrefi, sem er án þeirra breytinga sem við vildum um lágmarksfjárhæð, þar sem hver flokkur óháð stærð fengi ákveðið lágmark til reksturs síns flokk, hún er á skjön við okkar hugmyndir. Svona hækkun í einu skrefi gengur ekki, þetta er bara kjararáð númer tvö. Ef þessi fjárframlög eiga að efla lýðræðið, þá er það bara fyrir stóru flokkana, en ekki þá litlu. Þeir sitja áfram í sömu súpunni. Minni flokkarnir munu koma til með að eyða öllu sínu fé í hefðbundinn rekstur, meðan þeir stærri eiga afgang fyrir auglýsingar og slíkt. Til dæmis hækkar framlag Sjálfstæðisflokksins um 99 milljónir á næsta ári samkvæmt þessu.“
Í erindinu er farið fram á „leiðréttingu“ í einu skrefi, þar sem framlögin hafi lækkað að raunvirði ár frá ári, síðan lög voru sett um rekstrargrundvöll stjórnmálaflokka árið 2007, þar sem kveður á um takmörkun á frjálsum fjárframlögum:
„Þetta hefur haft mikil áhrif á starfsemi stjórnmálaflokka til hins verra. Þess vegna erum við undirrituð sammála um nauðsyn þess að leiðrétta framlögin. Að óbreyttu er ekki hægt að uppfylla markmið laganna um að ,,auka traust á stjórnmálastarfsemi og efla lýðræðið“. Því er hér farið fram á leiðréttingu samkvæmt vísitölum frá árinu 2008 sem nemur 362 milljónum til viðbótar lið 05.4 Stjórnsýsla ríkisfjármála, 09-999 Ýmislegt nr. 118 í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2018,“
segir í erindinu. Sá liður er talað er um er upp á 286 milljónir, sem þýðir að heildarframlagið færi upp í 648 milljónir króna.
Framkvæmdastjórar flokkanna sex sem standa að erindinu eru Ásgeir Runólfsson, fulltrúi Samfylkingarinnar, Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðreisnar, Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri Vinstri grænna, Einar Gunnar Einarsson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, Svanur Guðmundsson, fulltrúi Miðflokksins, og Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Þetta kemur fram á vef Kjarnans.