
Landssamtök íslenskra stúdenta fara fram á að fá tvo fulltrúa samtakanna í starfshóp menntamálaráðuneytisins við endurskoðun á námslánakerfinu. Þetta kemur fram í opnu bréfi sem samtökin hafa sent á Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra. Aldís Mjöll Geirsdóttir er formaður samtakanna. Hún segist ekki hafa fengið viðbrögð frá ráðherra ennþá, en vonar að menntamálaráðherra standi við loforðið sem fyrirrennari hennar í starfi gaf þeim:
„Það hefur auðvitað verið mikil ólga vegna tíðra ríkisstjórnaskipta, en síðasti menntamálaráðherra lofaði okkur að við fengjum tvo fulltrúa í starfshópinn við endurskoðun LÍN, en sú ríkisstjórn féll tveim dögum eftir að frumvarpið var kynnt. Í þeim fjárlögum kom hinsvegar fram að þegar væri búið að stofna starfshóp um endurskoðun en þó var ekki búið að skipa fulltrúa stúdenta í hann. Í nýjum stjórnarsáttmála er gert ráð fyrir þessum starfshópi, í samráði við stúdenta og því viljum við ítreka vilja okkar, að fá tvo fulltrúa í þennan starfshóp. Stúdentar eru ekki einsleitur hópur og því viljum við tvo fulltrúa. Það er oft talað um að hafa eigi samráð við stúdenta en svo er það ekki endilega gert fyrr en eftir að vinnan hefur farið fram. Við eigum að sjálfsögðu fá að taka þátt í vinnunni frá byrjun. Það væri ekkert LÍN án stúdenta.“
Bréfið má lesa hér í heild sinni.