
Skarphéðinn Berg Steinarson hefur verið skipaður í embætti ferðamálastjóra af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra ferðamála. Skarphéðinn var valinn úr hópi 23 umsækjenda og hefur störf í janúar.Þetta kemur fram í tilkynningu frá Atvinnuvegaráðuneytinu.
Hæfnisnefnd mat þrjá umsækjendur best til þess fallna að gegna embætti ferðamálastjóra og samkvæmt heimildum Túrista voru þar nöfn Arnheiðar Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands, Halldórs Halldórssonar, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík auk Skarphéðins.
Skarphéðinn útskrifaðist með Cand. oecon. próf í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1987 og lauk MBA námi frá University of Minnesota árið 1990. Skarphéðinn hefur ágæta þekkingu á ferðaþjónustu í gegnum störf sín sem forstjóri Iceland Express og Ferðaskrifstofu Íslands og sem framkvæmdastjóri Íshesta. Hann hefur víðtæka stjórnunar- og rekstrarreynslu í starfi hjá fyrirtækjum og ráðuneytum og hefur þar komið að fjármálastjórnun, áætlanagerð og fjárlagagerð ásamt því að hafa góða reynslu af stjórnun breytinga samkvæmt því sem segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.