

Vilhjálmur Birgisson verkalýðsforingi á Akranesi hefur lengi talað tæpitungulaust og barist fyrir afnámi verðtryggingar og afnámi húsnæðisliðar úr lögum um vexti og verðtryggingu. Fyrir kosningarnar í haust var á ný rætt um að afnema verðtryggingu og taka húsnæðislið út. Í viðtali í helgarblaði DV segir Vilhjálmur að stjórnmálamenn í ákveðnum flokkum hefðu lofað því skýrt og greinilega.
„Á meðan sjálfstæðismenn fara með fjármálaráðuneytið þar sem þessir hlutir gerast hef ég litla trú á því. Þess vegna er ég hissa á framsóknarmönnum að hafa gefið eftir fjármálaráðuneytið sem hefur með þennan málaflokk að gera. Ég ætla ekki að útiloka það fyrirfram að Bjarni muni ekki fara eftir stjórnarsáttmálanum en ég óttast svik. Það segir sig sjálft að þeir sem eiga gríðarlega fjármuni og eru innviklaðir inn í fjármálakerfið eins og viðskiptaráðherra, eru líklegri til að berjast á móti því að afnema verðtryggingu eða taka út húsnæðislið,“
segir Vilhjálmur. Nú ríkir nokkur bjartsýni með nýja ríkisstjórn. Hefðir þú viljað sjá aðra flokka taka höndum saman?
Ég hefði getað hugsað mér að sjá Flokk fólksins í ríkisstjórn. Ég get útskýrt það á einfaldan hátt, þeir vilja hjálpa fólki sem höllustum fæti standa, taka á verðtryggingu og húsnæðislið. Ég hefði viljað Miðflokk líka því þeir voru með sömu stefnumálin og svo hefði ég viljað fá Framsókn. Ég bar saman kosningaloforð þessara þriggja flokka og þeir voru sammála í 90% tilfella. Þess vegna varð ég mjög hissa að þeir skyldu ekki mynda eins konar bandalag, vegna þess að stefnuskrá þessara flokka var nákvæmlega eins að langstærstum hluta.