
Samkvæmt Sir Stuart Peach, marskálki innan breska flughersins og nýskipuðum formanni hernefndar NATO, hafa herskip og kafbátar Rússa sést á hafsvæðum þar sem sæstrengir liggja í Atlantshafinu. Ef þeim tækist að rjúfa sæstrenginn, gæti það þýtt að England, auk fjölda annarra NATO ríkja, til dæmis Ísland, yrðu án internets auk þess sem viðskipti landanna við útlönd yrðu lömuð í lengri tíma.
Þá er vert að hafa í huga að kafbátaeftirlit NATO ríkjanna hefur stóraukist á síðust fjórum árum, aðallega undir forystu Bandaríkjaflota og hafa þeir meðal annars dvalið á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli þar sem þeir eru með aðstöðu. Ekki stendur þó til að hýsa hér her að nýju, að sögn íslenskra stjórnvalda.
„Þetta er ný ógn við afkomu okkar og lífsgæði. Ef sæstrengurinn verður rofinn, hefði það alvarlegar afleiðingar fyrir viðskipti og internetið,“
segir Peach.
Samkvæmt skýrslu þingmanns íhaldsflokksins í Bretlandi, Rishi Sunak, fara 97% samskipta heimsins í gegnum slíka sæstrengi og viðskipti sem nema um 10 trilljónum dollara á hverjum degi. Þar kemur einnig fram að rússneskir kafbátar séu að kerfisbundið að störfum nálægt sæstrengjunum og að fyrir innrás Rússlands inn í Úkraínu árið 2014, hafi þeir skorið á sæstrenginn og þar með samskipti Úkraínu við umheiminn.
Hinsvegar er bent á að mögulega séu rússneskir kafbátar „aðeins“ að stunda njósnir með því að tengjast sæstrengnum, líkt og Bandaríkjamenn og Bretar hafi gert árum saman.
Heimild: The Guardian