Samkvæmt vef Hagstofu Íslands hefur launþegum í sjávarútvegi fækkað undanfarið ár, meðan launþegum fjölgar í byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Á tímabilinu, frá nóvember 2016 til október 2017, voru 17.411 launagreiðendur á Íslandi að jafnaði, sem er fjölgun um 642 frá árinu áður. Á sama tímabili fengu 186.900 einstaklingar laun, sem er aukning um 8.400 frá tímabilinu á undan.
Alls voru 2660 launagreiðendur og 12.900 launþegar í byggingariðnaði í október 2017, sem er fjölgun um 1500 frá október 2016. Í ferðaþjónustu voru 1783 launagreiðendur og 26.800 launþegar og hafði launþegum fjölgað um 1.700 á einu ári. Í sjávarútvegi fækkar launþegum um 200 manns milli ára eða úr 9100 í 8900 en launagreiðendur voru 481 í október á þessu ári.
Á sama tímabili hefur launþegum í heild fjölgað um 6.500. Inni í þessum tölum eru ekki upplýsingar um einyrkja sem stunda rekstur á sinni eigin kennitölu og greiða sjálfum sér laun, sem ku vera algengt rekstrarform í byggingariðnaði, landbúnaði, hugverkaiðnaði og skapandi greinum, að því er fram kemur á vef Hagstofu Íslands.