
Það er nokkuð ljóst að kosningabaráttan fyrir sveitastjórnarkosningarnar þann 26.maí er hafin, sérstaklega í baráttunni um borgina, Reykjavík. Mikil umræða um skipulagsmál hefur verið í fjölmiðlum undanfarið, ekki síst varðandi hina umdeildu borgarlínu og hvernig umferð skal háttað næstu áratugi.
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir Dag B. Eggertsson borgarstjóra, í grein í Morgunblaðinu í dag og má gera ráð fyrir að síður Morgunblaðsins verði þéttskipaðar gagnrýni á meirihlutann næstu vikur og mánuði. Óli tekur einnig fyrir borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem hann segir ekki hafa náð eyrum borgarbúa.
Óli Björn bendir á að rekstur borgarinnar „verði aldrei skólabókardæmi um hvernig standa skuli að rekstri sveitafélags“ og tekur dæmi um að rekstrarkostnaður A-hluta verði 37% hærri árið 2022 heldur en árið 2016, sem er hækkun um 35 milljarða. Þá vitnar hann í Albert Þór Jónsson viðskiptafræðing, sem sagði í grein sinni að allir skattstofnar borgarinnar væru fullnýttir, en samt hefðu skuldir borgarinnar aukist til muna, meðan skynsamlegra hefði verið að greiða þær niður. Með slíku áframhaldi stefndi í greiðsluþrot innan fárra ára.
Óli Björn segir borgarstjórann Dag B. Eggertsson sannfærðan um að „útsjónarsemi“ einkenni rekstur borgarinnar, hún glími einungis við skort á tekjustofnum, ekki óhagkvæman rekstur og vitnar í orð borgarstjóra í DV frá árinu 2015 um að „tekjur hafa lækkað hægar en gjöldin.“
Óli Björn segir Dag sannfærðan um að opin rekstur snúist fyrst og síðast um að „auka tekjurnar“ og „finna nýja skatt- og tekjustofna.“ Þá minnist Óli Björn á gatnagerðargjöldin og skrefagjöldin fyrir sorptunnur borgarbúa, sem og hversu illa þrifin borgin sé og göturnar séu ekkert þrifnar, sem skili sér í minni lífsgæðum og meiri mengun.
Um skipulagsmálin segir Óli Björn:
„Gatnakerfi borgarinnar er að hrynja. Skipulagsmál eru í ólestri og lóðaskortur hefur keyrt upp fasteignaverð ekki aðeins í höfuðborginni heldur einnig í nágrannasveitarfélögunum. Lífskjör almennings hafa verið skert með skortstefnu meirihluta borgarstjórnar. Ekki aðeins með því að verð íbúða er hærra en það þyrfti að vera, ef lóðaframboð væri eðlilegt, heldur einnig vegna þess að hærra fasteignaverð hefur leitt til þess að skuldir launafólks hafa hækkað. En til að gæta sanngirni er vert að benda á að hugmyndir um hagræðingu skjóta stundum upp kollinum hjá meirihlutanum. Auðvitað er það ákveðin tegund af „útsjónarsemi“ hjá borgarfulltrúa og flokkssystur borgarstjóra, að leggja til að knattspyrnulið í efstu deild yrðu sameinuð í sparnaðarskyni.“
Þá kallar Óli Björn eftir skýrri framtíðarsýn hjá frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins í borginni sem hann segir ekki hafa náð eyrun borgarbúa:
„Í aðdraganda kosninganna 2014 hélt ég því fram að sjálfstæðismönnum hefði ekki tekist að ná eyrum borgarbúa í mörg ár – þeir ættu erfitt með að átta sig á því fyrir hvað Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík stæði. Kjósendur fengju misvísandi skilaboð frá borgarfulltrúum flokksins sem kæmi ekki fram sem ein heild – samhentur hópur með sömu sýn á framtíðina. Þetta virðist eiga við enn í dag. Ætli sjálfstæðismenn að ná árangri í komandi kosningunum verður stefnan að vera skýr. Einkunnarorð þeirra í vor eiga að vera valfrelsi, lægri álögur og betri þjónusta. Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins öðlast ekki tiltrú borgarbúa nema þeir setji fram skýra framtíðarsýn um þróun borgarinnar, öflugri þjónustu samhliða hófsömum álögum. Þeir verða að sannfæra kjósendur um að óskir þeirra í skipulagsmálum verði virtar og unnið verði að því að auka valfrelsi íbúanna á öllum sviðum, ekki síst í samgöngum, í búsetu og skólum. Spurningin er einföld: Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að nýta tækifærin í Reykjavík? Vonandi er svarið jákvætt.“