
Björn Jón Bragason, sagnfræðingur, vildi lítið tjá sig við Eyjuna varðandi þann orðróm sem birtist á vef Eiríks Jónssonar, um að hann hyggðist taka þátt í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir næstkomandi borgar-stjórnarkosningar. Nafn Björns er eitt margra sem nefnd hafa verið á undanförnum dögum, en leiðtogakjörið fer fram þann 27. janúar. Hann staðfesti þó að hugmyndin hefði verið viðruð við sig:
„Ég get staðfest klisjuna, um að margir hafi komið að máli við mig vegna málsins, en ég verst þó allra frétta,“
sagði Björn Jón.
Flestir, ef ekki allir þeir sem til sögunnar hafa verið nefndir varðandi framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn undanfarið, hafa ekki viljað gefa kost á sér. Björn Jón hugsar sér því máske gott til glóðarinnar, fyrst hann útilokar ekki framboð.
Björn Jón er höfundur bókarinnar Í liði forsætisráðherrans eða ekki ? sem kom út fyrir síðustu jól. Björn Jón hefur verið virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins undanfarin ár, bæði í Heimadalli og SUS, en hann beið í lægra haldi fyrir Davíð Þorlákssyni í formannskosningu SUS árið 2011. Björn bauð sig fram í 2.-3. sætið til borgarstjórnar Reykjavíkur árið 2014, en hlaut ekki kosningu.