
Ritstjórinn Sigurjón M. Egilsson kemur með hressilegt innlegg á Miðjunni í dag, hvar hann segir Ásmund Einar Daðason, félagsmálaráðherra Framsóknarflokksins, vera frambjóðanda Þórólfs Gíslasonar, kaupfélagsstjóra Skagfirðinga. Sigurjón segir að fyrst hafi Gunnar Bragi Sveinsson verið fulltrúi Kaupfélagsins í ríkisstjórn og allt hafi gengið að óskum þangað til að Gunnar Bragi sá til þess að Ísland beitti Rússland viðskiptaþvingunum, með tilheyrandi afleiðingum fyrir Kaupfélagið, þar sem Rússar hættu að kaupa sauðfjárafurðir úr Skagafirði.
„Með framgöngu sinni hafði utanríkisráðherrann Gunnar Bragi skaðað, að mati kaupfélagsstjórans, hagsmuni og afkomu hins heilaga Kaupfélags. Slíkt gera menn ekki nema þola refsiaðgerðir fyrir. Kaupfélagið fann sér annan frambjóðanda. Sá mun ekki leika af sér, ekki skaða hagsmuni Kaupfélagsins. Sá heitir Ásmundur Einar Daðason sem í fyrstu tilraun, sem fulltrúi þeirra fyrir norðan, varð ráðherra. Planið virkar,“
segir Sigurjón. Hann bætir við að ekki sé amalegt fyrir Kaupfélagið að eiga sinn eigin stjórnmálaflokk:
„Eftir að Gunnar Bragi sá að búið var að loka á hann og að hann ætti litla sem enga möguleika til að halda sæti sínu fór hann suður sem fylgdarmaður formannsins fyrrverandi, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Sá var formaður Framsóknarflokksins í áraraðir og þekkir innviði hans og uppbyggingu betur en flestir aðrir. Hann er viss og sannfærður um hver á Framsóknarflokkinn í raun og veru. Það er Kaupfélag Skagfirðinga. Nýjasta ríkisstjórnin er búin að redda sauðfjárbændum og afurðastöðvum, þar á meðal Kaupfélaginu. Kannski bara fyrir horn, en framtíðarredding er eflaust í planinu. Hinu skagfirska plani. Sama er að segja um sjávarútveginn. Veiðigjöldin verða lækkuð og Kaupfélagið verður sátt. Það er virðist ekki ónýtt að eiga sinn eigin stjórnmálaflokk.“