
Jóna Sólveig Elínardóttir, sem gegnt hefur embætti varaformanns Viðreisnar, tilkynnti á Facebook síðu sinni í dag, að hún hefði sagt af sér embættinu. Hún segist ekki hætt afskiptum af stjórnmálum, en segir nýjan áfanga í lífi sínu að hefjast og geti því ekki gefið sig af fullum krafti í embættið. Hún segist hafa greint stjórn Viðreisnar um ákvörðun sína um miðjan desember.
Í samtali við Eyjuna vildi Jóna Sólveig ekkert gefa upp um hvað hún hygðist taka sér fyrir hendur.
„Ég er ekki tilbúinn að gefa það upp að svo stöddu. Ég bara þannig gerð að þegar ég á að sinna einhverju, þá geri ég það 150%. Eins og sakir standa finn ég að ég get það ekki í þessu embætti,“
segir Jóna Sólveig. Aðspurð hvort hún hafi hætt vegna einhversskonar ósættis og væri hætt alfarið í Viðreisn sagði Jóna:
„Nei, þetta er bara ákvörðun sem ég tek. Eins og ég segi, þá er ég aðeins að draga mig í hlé úr flokksstarfi hérna svona tímabundið, þó ég hafi ennþá skoðanir á stjórnmálum.“
Eftirmaður Jónu verður kosinn á landsfundi flokksins aðra helgina í mars.
Hér má sjá færslu Jónu á Facebook:
Kaflaskipti. Um miðjan desember tilkynnti ég stjórn Viðreisnar um þá ákvörðun mína að ég léti af embætti varaformanns. Ákvörðunin er tekin að vel ígrunduðu máli en eins og sakir standa, og í ljósi þess að nú er nýr áfangi í lífi mínu að hefjast, tel ég mig ekki geta gefið mig af fullum krafti í embættið. Þetta þýðir ekki að ég sé hætt afskiptum af stjórnmálum en ég tel að nú sé rétt að beina athyglinni tímabundið að öðrum verkefnum.
Með ósk um farsælt komandi ár þakka ég stjórn flokksins, trúnaðarmönnum og öllu því frábæra fólki sem hefur stutt mig í þessu hlutverki fyrir frábært samstarf sl. 1 1/2 ár.