Héraðssaksóknari hefur ákært þrjá einstaklinga fyrir meint skattalagabrot sem framin voru í rekstri verktakafyrirtækisins SS verks, sem í dag heitir Verktak-15. RÚV greinir frá.
Þau eru Sigurður Kristinsson, Armando Luis Rodrigues og Unnur Birgisdóttir. Sigurður er eiginmaður Sunnu Elviru Þorkelsdóttur, sem lamaðist við fall á heimili sínu á Spáni í upphafi árs og hefur dvalið á spítölum þar síðan. Sigurður hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan í janúar, grunaður um stórfelldan fíkniefnainnflutning í svokölluðu Skáksambandsmáli.
Armando Luis Rodriguez, sem er ákærður ásamt Sigurði og Unni, á að baki langan sakaferil. Þar má helst nefna 16 mánaða fangelsisdóm fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás árið 2010. Þá var hann dæmdur fyrir að hafa veist að manni í miðbæ Reykjavíkur ásamt öðrum meðal annars með ítrekuðum höggum og spörkum víðsvegar í líkama hans
Unnur er móðir Sunnu Elviru en hún var starfsmaður SS verks um árabil og sá um bókhald félagins. DV fjallaði meðal annars um umdeilan gjörning sem skiptastjóri rannsakaði en hann snerist um heimili Unnar í Kópavogi. Þann 10. maí 2017 var þinglýst afsali af íbúð í fjölbýlishúsi við Vallakór 2b í Kópavogi. Seljandi íbúðarinnar var SS hús ehf., en fyrirtækið byggði umrætt fjölbýlishús. Kaupandi fasteignarinnar var GS Pípulagnir ehf., en það félag var stofnað af Gísla Steingrímssyni, eiginmanni Unnar og stjúpföður Sunnu Elviru. Sunna Elvira er skráð stjórnarformaður félagsins og framkvæmdastjóri en hún kvittaði undir afsalið að eigninni fyrir hönd GS Pípulagna ehf.
Vafi lék á hvort greiðsla hafi borist vegna viðskiptanna og því hafði skiptastjóri SS húsa ehf., Heiðar Ásberg Atlason, lagt fram kröfu þess efnis að gerningum yrði rift.