fbpx
Föstudagur 03.maí 2024
FréttirLeiðari

Það var fyrir níu árum

Kolbrún Bergþórsdóttir
Þriðjudaginn 14. júní 2016 11:23

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sem þjóð hljótum við að leitast við að byggja upp réttlátt samfélag sem hefur mannréttindi í heiðri og byggir á sem mestum jöfnuði. Því miður er stundum eins og sinnuleysi grípi um sig meðal ráðamanna þegar kemur að mannréttindamálum. Dæmi um þetta er frétt sem RÚV hefur sagt frá og lagt út af síðustu daga og snýr að réttindum fatlaðra. Þar fréttum við af því að þótt níu ár séu liðin síðan Íslendingar skrifuðu undir sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þá hafa þeir ekki enn fullgilt sáttmálann. Langt er hins vegar síðan nær allar aðrar Evrópuþjóðir hafa staðfest þennan sama sáttmála og alls hafa 164 ríki fullgilt hann. En ekki við. Kannski hefur íslenskum stjórnvöldum þótt of mikið vesen að fullgilda hann því þá þarf að breyta lögum og ýmis kostnaður getur hlotnast af því.

Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins var hér á landi á dögunum og talaði á fundum um mannréttindi. Þar sýndi sig að glöggt er gests augað því hann lýsti furðu sinni á því að Íslendingar sýni ekki meiri metnað þegar kemur að alþjóðlegum samningum um mannréttindi. Hvar er mannréttindahugsjónin sem við viljum sem þjóð örugglega kenna okkur við? Hér er um að ræða alþjóðlegan sáttmála Sameinuðu þjóðanna og ekkert gerist í níu ár annað en að vinna er sögð eiga sér stað í þremur ráðuneytum. Vissulega er kerfið oft þungt í vöfum og alls kyns skriffinnska í ráðuneytum er tímafrek en varla svo mjög að mál eins og þetta eigi að dragast á langinn í níu ár. Þetta eru sérkennileg vinnubrögð, metnaðarleysið virðist algjört og sinnuleysið sömuleiðis. Þessi töf getur ekki talist eðlileg nema náttúrlega ef stjórnvöld telja mannréttindamál nokkuð sem dútla eigi við í rólegheitum þegar lítið annað er að gera. Flest teljum við samt örugglega að ef við sem þjóð skrifum undir alþjóðlega samninga þá beri að virkja þá þannig að farið sé eftir þeim og lögum breytt í samræmi við það en lappirnar ekki dregnar árum saman. Það kostar einhverja fjármuni að auka réttindi fatlaðs fólks en lýðræðið kostar hvort er eð heilmikið. Síst eigum við að breytast í Scrooge þegar kemur að því að auka mannréttindi. Vilji er allt sem þarf. Svo virðist hins vegar sem stjórnvöld hafi skort viljann, ekki bara í þessu máli heldur fjölmörgum öðrum þáttum sem snúa að mannréttindum.

Orð mannréttindafulltrúans og fjölmiðlaumfjöllun munu líklega verða til þess að vinnu í ráðuneytunum verði hraðað og sáttmáli um réttindi fatlaðra verði leiddur í lög. Það er kominn tími til að stjórnvöld taki við sér og fari að aðhafast í máli sem hófst með undirskrift – fyrir níu árum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bönkuðu upp á hjá manninum sem braut gegn dóttur hans – Það endaði með dómsmáli

Bönkuðu upp á hjá manninum sem braut gegn dóttur hans – Það endaði með dómsmáli
Fréttir
Í gær

Íbúi í Laugardal orðinn þreyttur á suði frá sendidrónum AHA – Eigandi segir engan truflandi hávaða af drónunum

Íbúi í Laugardal orðinn þreyttur á suði frá sendidrónum AHA – Eigandi segir engan truflandi hávaða af drónunum
Fréttir
Í gær

Kjartan vill að stakir frídagar verði færðir að helgum: Slíta í sundur vinnuvikuna og valda margvíslegu ónæði

Kjartan vill að stakir frídagar verði færðir að helgum: Slíta í sundur vinnuvikuna og valda margvíslegu ónæði
Fréttir
Í gær

Bandaríkin sendu Úkraínu nýtt vopn með mikilli leynd

Bandaríkin sendu Úkraínu nýtt vopn með mikilli leynd