

Ef við notum sjónlist til að fegra rýmið, þá hljótum við að nota tónlist til að fegra tímann. Ég man ekki hvar ég las þetta. Ég þykist í það minnsta viss um að þessi viska sé ekki frá mér sprottin.
Það sem okkur þykir jólalegast er hefðin. Við virðumst stöðugt spenna bogann að því marki að endurframkalla enduróm bestu brotanna úr æskujólunum. Þetta sem var alltaf svona, það þarf að vera eins núna. Meira að segja hjá fólkinu sem átti erfið æskujól. Það teygir sig bara lengra ofan í minningapokann og þreifar eftir einhverju fallegu, broti af minningu um geisladisk sem flaut í bakgrunni þegar ljós fékk að loga í friði.
Jólin eru tími tónlistar. Hún er notuð í öllum setlögum hátíðarhaldsins. Allt frá augnablikinu þegar fyrstu jólakortin fara í umslag undir ljúfu jólapoppi er hún ómissandi hluti af árstímanum. Henni er básúnað yfir Kringluna í sálrænum markaðshernaði gegn neytendum og hún er notuð til að framkalla mesta hátíðleikann þegar Ó, helga nótt er sungin á jóladag.
Jólatrén breyta um efni og lit, nýjar matarhefðir líta dagsins ljós sem sveiflast með tískubylgjum næringarspekúlanta hverju sinni. Jólagjafirnar eru aldrei þær sömu og sætaskipanin við veisluborðið hreyfist til. Sumir kveðja og nýir koma. En jólatónlistin bindur öll augnablikin saman í eina samfellu sem við köllum jólin.
Þeir sem hafa unnið við tónsmíðar þekkja vel hversu flókið getur verið að semja nýtt jólalag. Það sem gerir lag jólalegt er ekki aðeins textinn heldur þarf að vera ákveðin angurværð og vetur í hljómagangi og uppbyggingu. Hvað umfjöllunarefnið varðar eru efnistökin yfirleitt takmörkuð. Rómantísku jólaáhrifin hafa færst í aukana síðustu áratugi þar sem nánast hvert einasta jólapopplag fjallar um ástina. Sé litið á eldri jólalög fjalla þau oftar um kristilegan boðskap hátíðarinnar, jólatré, veraldlega hluti eða hefðir.
Hinn ástfangni í aðdraganda jóla, Helgi Björns sem hugsanlega nennir, er fullur örvæntingar yfir einhverskonar ástartengdu uppgjöri á meðan þessi veraldlegu jól Jólahjólsins fjalla um hverskonar jólagjöf leynist í pakkanum og hvort að ósk um að eignast eitthvað rætist. Á flestum heimilum gengur þessi tegund jólatónlistar hring eftir hring alla hátíðina þangað til fólk sprengir upp gamla árið, tekur niður jólaskrautið og heldur áfram.
Ég finn fyrir ákveðinni jólaþreytu, ekki bara á þessu ári heldur síðustu áratugi. Ég sakna hátíðleikans og ég finn að ég er farin að leita hans í auknum mæli. Ég er alin upp á „níunni“ og það má segja að gullöld jólapoppsins hafi staðið yfir þegar ég var á grunnskólaaldri.
Jólin eru ljósa- og fjölskylduhátíð. Hátíðin er þarna af ástæðu, við þurfum á henni að halda. Sérstaklega hér í myrkrinu. En það er erfitt að leita sér sáluhjálpar við tilvistarangist, lífi og dauða í textum sem fjalla um jólagjafakaup, daður á kránni og kramin hjörtu. Það þarf aukinn slagkraft til að veita líkn við smæð mannsins og stærð heimsins.
Gleðileg jól.