
Sævar Þór Sveinsson, sem heldur utan um síðuna Utanvallar.is, var gestur Helga Fannars Sigurðssonar í Íþróttavikunni á 433.is og fór yfir fjármálahlið íþróttanna.
Fréttir af því að KSÍ hafi sagt upp markaðsstjóra og ekki ráðið nýjan vöktu athygli á dögunum og voru til umræðu í þættinum.
„Það er alltaf verið að tala um að það þurfi að efla markaðstörfin hjá félögunum og KSÍ svo mér finnst mjög áhugavert að þau fari þessa leið,“ sagði Sævar en telur hann þó að sambandið hafi góðar ástæður fyrir þessu.
„Ég skoðaði fundargerð frá stjórninni og þar kemur fram að það eigi að sameina markaðs- og samskiptasvið. Það er alltaf gott ef það á að hagræða í rekstrinum en maður veltir fyrir sér hvort að þetta sé endilega rétta skrefið, sérstaklega ef maður hugsar út í kostnaðinn við að vera með einn markaðsstjóra í starfi.
Þetta eru kannski 15 milljónir á ári með öllu, þetta eina starfsgildi. Geturðu ekki fengið þá upphæð í gegnum einhverjar markaðstekjur? En ég ímynda mér að þetta sé vel ígrunduð hugsun hjá KSÍ.“
Umræðan í heild er í spilaranum.