
Franski læknirinn Frederic Péchier hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa af ásetningi eitrað fyrir 30 sjúklingum sínum, en 12 þeirra létu í kjölfarið lífið. Brotin áttu sér stað á árunum 2008-2017. Péchier hefur eins verið sviptur læknaleyfinu til frambúðar.
Péchier, sem hefur nú fengið viðurnefnið Dauði læknir, starfaði sem svæfingarlæknir og eitraði vísvitandi fyrir sjúklingum í skurðaðgerðum til að koma þeim í hjartastopp. Yngsti þolandinn var fjögurra ára barn sem lifði af tvo hjartastopp af völdum Péchier í hálskirtlatöku. Elsti þolandinn var 89 ára. Ekki liggur á hreinu hvað vakti fyrir Péchier, hvort hann hafi viljað leika hetjuna sem bjargaði sjúklingum með endurlífgun, hvort hann vildi sýna vald sitt eða hvort hann vildi rústa orðspori kollega sinna með því að sýna fram á vanhæfni þeirra.
Þegar aðalmeðferð lauk í síðustu viku kallaði saksóknari Péchier raðmorðingja og sagði: „Þú ert Dauði læknir, eitrari, morðingi. Þú ert smánarblettur læknastéttarinnar.“
Lögmenn aðstandenda og þolenda fagna því í dag að réttlætið hafi sigrað og kalla Péchier enn versta glæpamann í sögu Frakklands. Péchier neitar enn sök og ætlar að áfrýja málinu. Dómari tilkynnti þó í dag að hann verði að áfrýja úr fangaklefanum.
Faðir fjögurra ára drengsins lýsti því fyrir dómi að læknavísindin hafi brugðist fjölskyldunni. „Það sem kom fyrir okkur er martröð. Við treystum læknavísindunum og upplifum okkur svikin.“
Sonur hans var meðvitundarlaus í tvo daga eftir aðgerðina og vissu foreldarnir ekki hvort hann myndi lifa af. Faðirinn segir að Péchier hafi notað drenginn eins og tuskubrúðu til að jafna sakir við kollega sína. „Þetta var ómanneskjulegt og viðbjóðslegt.“
Drengurinn lifði af og er 14 ára í dag. Hann treysti sér hvorki til að bera vitni né vera viðstaddur í dómsal. Faðir hans las upp yfirlýsingu frá honum þar sem drengurinn sagði: „Mér skilst að þegar ég var aðeins 4 ára gamall hafi einstaklingur notað mig og líf mitt til að skapa vandræði. Ég er um 10 mínútum lengur að skrifa en bekkjafélagar mínir. Ég óttast að afleiðingar eitrunarinnar muni fylgja mér út lífið.“
Sandra Simard var 35 ára árið 2017 þegar Péchier eitraði fyrir henni í því sem átti að vera hefðbundin bakaðgerð. Henni var haldið sofandi dögum saman eftir aðgerðina og mun glíma við afleiðingarnar ævilangt. „Ég er kvalin í öllum líkamanum. Það er eins og ég sé föst í líkama aldraðs einstaklings,“ sagði hún í dómsal en hún þarf nú að ganga með hækju vegna eitrunarinnar.
Lögmaður nokkurra þolenda sagði Pécher hafa notað sjúklinga sína sem fallbyssufóður til að rústa orðspori kollega sinna. „Ekkert ykkar gæti ímyndað sér að vera vísvitandi myrt af lækni.“