fbpx
Miðvikudagur 17.desember 2025
EyjanFastir pennar

Thomas Möller skrifar: Af hverju hatar Trump Evrópu?

Eyjan
Miðvikudaginn 17. desember 2025 06:00

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nýútkomin þjóðaröryggisstefna Bandaríkjastjórnar hefur vakið mikla athygli um allan heim. Hún er talin marka tímamót í samskiptum Bandaríkjanna (BNA) og Vesturlandaþjóða en flestir leiðtogar þeirra hafa gagnrýnt stefnuna harðlega.

Trump kynnti hana sem „vegvísi sem á að tryggja að Ameríka verði áfram mesta, stærsta og farsælasta ríki í sögu heimsins.“

Það telst jákvætt að stefna BNA fyrir næstu þrjú ár liggi fyrir og að lönd heimsins geti miðað við hana í sínum áætlunum og viðbrögðum.

Í stefnunni kemur fram að BNA eigi að hætta að vera „lögregla heimsins.“ Þar eru þrjár ógnir við BNA nefndar: glæpir, eiturlyf og innflytjendur. Hvergi er minnst á að hryðjuverkasamtök eða Rússland séu ógnir við Ameríku. Talað er um að valdajafnvægi sé mikilvægara en valdakapphlaup. Evrópulönd eru hvött til að taka á sig meiri byrðar í varnarmálum.

Evrópukaflinn vekur mikla athygli

Þrátt fyrir að í stefnunni sé ákveðinn friðartónn sleginn og hvatt til friðsamlegra samskipta milli þjóða þá vekur mikla furðu hvað kaflinn um Evrópu er harðskeyttur og óvæginn. Í stefnunni er ábyrgðinni á stríðinu í Úkraínu skellt á Evrópulöndin. Hvergi er minnst á ábyrgð Rússa.

Evrópa kemur 48 sinnum fyrir í stefnunni enda hefur Evrópukafli hennar komið leiðtogum Evrópu í opna skjöldu. Talið er að sá kafli muni hafa miklar afleiðingar í för með sér fyrir samstarf Vesturlanda enda er hann mjög harðorður í garð Evrópu.

Sem dæmi um viðbrögð er að Friedrich Merz kanslari Þýskalands lýsti því yfir í síðustu viku að áratuga skipulag varnarmála Vesturlanda undir leiðsögn BNA væri að líða undir lok. Hann hvatti Evrópubúa til að búa sig undir að taka varnarmálin í eigin hendur og að friðartrygging Ameríku (e. pax americana) þar sem BNA hefur ábyrgst varnir Evrópu frá stríðslokum væri að mestu liðin undir lok.

Evrópu er líst sem heimsálfu sem verður óþekkjanleg eftir 20 ár og að við henni blasi efnahagsleg og hernaðarleg hnignun og „siðmenningarlegt sjálfsmorð“ þar sem álfan verður yfirtekin af innflytjendum.

Þess má geta að í Bandaríkjunum er hlutfall innflytjenda um 15% en aðeins um 10% í Evrópu.

Í stefnunni er hvatt til stuðnings Bandaríkjastjórnar við öfga-hægri hreyfingar í Evrópu og aukinni samvinnu við stjórnvöld í Austurríki, Ungverjalandi, Ítalíu og Póllandi undir slagorðinu „Make Europe Great Again.“ Þannig verði auðveldara að grafa hraðar undan stofnunum Evrópusambandsins með það að lokamarkmiði að sambandið liðist í sundur.

Er það golfvöllurinn á Írlandi?

Greinendur hafa reynt að finna út af hverju Trump hatar Evrópu svona mikið.

Ein skýringin gæti verið að Trump stjórnin öfundi Evrópu vegna velgengni álfunnar í heilbrigðis- menntunar- og velferðarmálum. Nefnt hefur verið að um 600 þúsund manns verði gjaldþrota á ári í BNA vegna vangreiddra reikninga frá heilbrigðisfyrirtækjum. Þetta er nánast óþekkt fyrirbrigði í Evrópu.

Önnur ástæða er talin sú að ESB hefur verið að sekta stóru amerísku tæknifyrirtækin fyrir hegðun sína á mörkuðum í Evrópu, markaðsmisnotkun þeirra og ólöglega söfnun persónuupplýsinga. Stærsti hluti hagvaxtar og hækkunar hlutabréfa í BNA er vegna þessara fyrirtækja.

Annað sem truflar Trump er frjálslyndið og alþjóðahyggjan í Evrópu sem MAGA hreyfing hans hatar hvað mest.

Trump minnist varla á ESB án þess að tala um golfvöllinn sem hann ætlaði að opna á Írlandi, sem að hans sögn hefur tafist í fjölda ára vegna umhverfisreglugerða frá ESB. Þetta segir hann vera dæmi um hamlandi regluverk ESB og hefur hann ekki getað fyrirgefið Brussel fyrir þetta.

Nýlega kom í ljós að það var sveitarstjórnin á svæðinu sem stöðvaði golfvallardrauma forsetans.

Svona talar maður ekki um bandamenn sína

Í vefriti Guardian er sagt að í stefnunni lýsi BNA því yfir að Evrópa sé þeirra óvinur og helsti andstæðingur og að Bandaríkin séu með stefnunni að yfirgefa lýðræðisgildi Vesturlanda.

Í viðtali við Politico kom fram augljóst hatur Trump á öllu sem er evrópskt nema þeim flokkum sem eru lengst til hægri í álfunni. Trump hefur sagt að Evrópa og leiðtogar álfunnar séu veikburða, heimskir og á villigötum. Aðspurður hvort Evrópulönd væru bandamenn BNA sagði hann einfaldlega að það færi eftir ýmsu (e. it depends).

Trump varar við því að Evrópa sé að rotna innan frá og að Evrópsk siðmenning muni þurrkast út þar sem álfan muni brátt vera eingöngu byggð öðrum en Evrópubúum (e. non- Europeans)

Carl Bildt segir að stefnan sé „hægra megin við öfga hægri stefnur.“

Einnig hefur verið talað um að Bandaríkin, sem hafa verið aðal kyndilberi lýðræðis og mannréttinda á Vesturlöndum, muni einangrast frá Evrópu sem muni óhjákvæmilega taka við og halda uppi grunngildum hins vestræna heimshluta. Sameinuð Evrópa undir merkjum ESB er í dag annað stærsta hagkerfi heims. Án ESB væri álfan samansafn um 30 ríkja sem lenda á milli tveggja stórra hervelda og hefðu lítið bolmagn gegn þeim.

Sagnfræðingurinn Njall Ferguson varar við því að taka stefnuna of alvarlega. Hún sé þýðingarlítil uppskrift að pylsu (e: sausage recipe) sem hvorki Trump né hans nánustu samstarfsmenn muni nota.

Hann segir að óánægja Evrópu með stefnuna sé óþörf þar sem stefnan sé full af ósköp venjulegum hugmyndum um alþjóðamál, að hagsmunir Bandaríkjanna fái forgang, að valdajafnvægi sé mikilvægt og að fleiri en Bandaríkjamenn eigi að taka á sig kostnað við varnir og þróunaraðstoð.

Nokkrir álitsgjafar telja að öryggisstefnan sé í raun viðskiptaáætlun (e business plan) þar sem verið er að sækjast eftir auðlindum heimsins og að amerísk fyrirtæki fái viðskiptasamninga um allan heim án útboðs. Suður Ameríka er aðalrétturinn á þeim matseðli.

Hvatning til að gera betur

Við Evrópubúar ættum að nota stefnuna sem leiðbeiningar og hvatningu til að gera betur, efla Evrópusamvinnuna, styrkja varnir Evrópu, styðja við fólksfjölgun, þétta raðirnar og gera álfuna óháðari Ameríku.

Við getum litið svo á að vinur sé að segja til vamms sem þýðir í raun að sannur vinnur segir hvernig við getum bætt okkur og gert betur .

Evrópusambandið er samvinnuhreyfing sem er líklega besta samstarfskerfi þjóða sem hefur verið komið á í sögu heimsins. Eftir um 3000 ára stöðugar styrjaldir í Evrópu er nú kominn um 80 ára friðartími innan Evrópusambandsins. ESB löndin 27 búa við einhver bestu lífsskilyrði í heiminum og eru yfir 73% íbúanna ánægðir með veru síns lands í ESB.

Það sem við Íslendingar getum lært er að efla enn betur Evrópusamvinnu okkar, en á sama tíma tryggja áframhaldandi varnarsamning við BNA sem hefur verið í gildi frá árinu 1951.

Næsti forseti kemur árið 2029

Þegar þessi pistill birtist eru aðeins 1130 dagar eftir af valdatíð Trumps.

Þegar er byrjaður undirbúningur að framboðum til nýs forseta sem tekur við þann 20. janúar 2029. Í kjölfarið verður samin ný þjóðaröryggisstefna og eru stjórnmálasérfræðingar þegar farnir að geta sér til um innihald hennar.

Nýja stefnan mun væntanlega hvetja vinaþjóðir Bandaríkjanna til að taka á sig aukinn hluta herkostnaðar NATO og þróunaraðstoðar.

Nýja öryggisstefnan verður hófsamari gagnvart bandamönnum Bandaríkjanna í Evrópu og Asíu.

NATO verði aftur viðurkennt sem mikilvægasti hlekkurinn í varnarsamstarfi Vesturlanda með aukinni kostnaðarþátttöku Evrópulanda. Stuðningur við uppbyggingu í Úkraínu að loknu stríðinu þar verði mikill og samstarf við sífellt stækkandi ESB verði aukið, þar með talið Ísland.

Flekaskil og kaflaskil

Ísland stendur á flekaskilum Evrópuflekans og Ameríkuflekans. Flekarnir hafa verið að færast í sundur um 2 sentimetra á ári.

Nýjar rannsóknir sýna að síðustu árin hefur Evrópuflekinn staðið kjurr meðan Ameríkuflekinn færist í vestur um 2 sentimetra á ári.

Þessi breyting er táknræn og sýnir hvernig samskipti, og landfræðileg staða Evrópu og Ameríku eru að þróast.

Einangrun Bandaríkjanna frá Evrópu mun styðja við þá umræðu sem er um væntanlega aðild Íslands að ESB.

Við Íslendingar þurfum að taka afstöðu til þess hvorum megin flekaskilanna hagsmunum okkar er betur borgið í framtíðinni.

Niðurstaðan er augljós að mínu mati. Við erum og verðum áfram Evrópuþjóð.

Höfundur er stjórnarmaður í Evrópuhreyfingunni www.evropa.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Reiði skólameistarinn

Reiði skólameistarinn
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Munurinn á aðildarþjóð og „lobbý-þjóð“

Þorsteinn Pálsson skrifar: Munurinn á aðildarþjóð og „lobbý-þjóð“
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Nína Richter skrifar: Jólaljós fyrir femínista og Miðflokksfrændur

Nína Richter skrifar: Jólaljós fyrir femínista og Miðflokksfrændur
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Verðbólga fírast niður en vextir næst ákveðnir eftir rúma tvo mánuði

Verðbólga fírast niður en vextir næst ákveðnir eftir rúma tvo mánuði
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Nína Richter skrifar: Allar hinar Nínurnar

Nína Richter skrifar: Allar hinar Nínurnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Breytt flokkakerfi og ný framtíðarmynd

Þorsteinn Pálsson skrifar: Breytt flokkakerfi og ný framtíðarmynd
EyjanFastir pennar
15.11.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Jöfnuðurinn einn tryggir lýðræði og mannréttindi

Sigmundur Ernir skrifar: Jöfnuðurinn einn tryggir lýðræði og mannréttindi
EyjanFastir pennar
15.11.2025

Óttar Guðmundsson skrifar: Sjálfstæðisflokkurinn og Jón Þorláksson

Óttar Guðmundsson skrifar: Sjálfstæðisflokkurinn og Jón Þorláksson