fbpx
Þriðjudagur 16.desember 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Samstarf á vinstri væng gæti gjörbreytt vígstöðunni næsta vor – Verður Sanna næsti borgarstjóri?

Eyjan
Mánudaginn 15. desember 2025 19:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Borgarfulltrúinn vinsæli, Sanna Magdalena Mörtudóttir, kynnti útspil um helgina sem gæti breytt miklu í komandi borgarstjórnarkosningum. Hún ætlar ekki að bjóða sig fram fyrir Sósíalistaflokk Íslands, enda er þar allt í uppnámi og illdeilum. Hún boðar nýtt framboð og vonast eftir öflugu samstarfi á vinstri kantinum. Vert er að hafa í huga að vinstri framboðin Sósíalistaflokkur Íslands, VG og Píratar fengu 23,3 prósent atkvæða í síðustu borgarstjórnarkosningum og sex borgarfulltrúa kjörna samtals. Staða þessara flokka er trúlega ekki svo sterk um þessar mundir en þeir gætu náð miklum árangri með því að sameinast í nýju framboði undir forystu Sönnu sem nýtur mestra vinsælda allra borgarfulltrúa samkvæmt skoðanakönnunum.

Orðið á götunni er að öflugt framboð Sönnu Magdalenu geti sett stórt strik í reikninginn hjá stóru flokkunum í borginni sem hafa barist um forystu í undangengnum kosningum en yrðu ekki í sama forgrunni og áður ef sameinað framboð þessara þriggja vinstri flokka yrði að veruleika með vinsæla frambjóðandann Sönnu í stafni – sem borgarstjóraefni. Ekki er nein goðgá að ætla að slíkt framboð gæti hæglega fengið fimm eða jafnvel sex borgarfulltrúa kjörna, náist góð samstaða um framboðið milli gömlu flokkanna sem allir eiga um sárt að binda og hafa í rauninni allt að vinna en engu að tapa.

Ástæðulaust er að einblína um of á ætlað einvígi milli Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins því að fleiri munu koma öflugir til kosninganna næsta vor. Miðflokkurinn fékk engan mann kjörinn í borgarstjórn síðast en hefur verið í uppsveiflu að undanförnu, einkum á landsbyggðinni. Miðflokkurinn gæti hæglega fengið þrjá menn kjörna í borgarstjórn næst. Viðreisn missti einn mann síðast og fékk einungis einn borgarfulltrúa kjörinn. Búist er við að Viðreisn muni tefla fram mjög öflugum lista næst og gæti fengið þrjá eða jafnvel fjóra menn kjörna í borgarstjórn. Framsókn hlaut góða kosningu síðast en hefur heldur betur fatast flugið og fær nú sennilega bara einn mann kjörinn í vor, ef það. Flokkur fólksins fékk einn fulltrúa kjörinn í borgarstjórn síðast. Ekki er víst að flokkurinn nái manni inn að þessu sinni.

Orðið á götunni er að nái framboð Sönnu Magdalenu jafnmiklu eða meira fylgi en Samfylking og Sjálfstæðisflokkurinn þá hlyti hún að gera kröfu um að verða borgarstjóri í þeim meirihluta sem myndaður yrði. Takist vel til með framboð á vinstri vængnum gætu úrslit kosninganna orðið í líkingu við þetta: Framboð Sönnu, Samfylking og Sjálfstæðisflokkurinn með kringum 20 prósenta stuðning hver og fimm borgarfulltrúa hvert framboð. Viðreisn gæti fengið 15 prósenta fylgi og fjóra menn kjörna í borgarstjórn og Miðflokkurinn gæti fengið þrjá fulltrúa kjörna. Framsókn tapaði miklu en næði væntanlega einum manni kjörnum. Önnur framboð eins og flokkur fólksins fengju þá engan mann kjörinn samkvæmt þessari tilgátu. Þetta væru samtals 23 borgarfulltrúar.

Hvernig meirihluta væri þá hægt að mynda? Ætla má að Sanna Magdalena og hennar framboð kysi ekki vinna með hægri flokkunum, ef hjá því yrði komist. Afar ólíklegt er að Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn gætu unnið saman eða vildu vinna saman. Líklegasti kosturinn yrði því meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur myndaður af Samfylkingunni, framboði Sönnu og Viðreisn. Samtals nyti slíkur meirihluti stuðnings 14 borgarfulltrúa af 23 borgarfulltrúum. Minnihluti yrði þá skipaður 9 fulltrúum frá Sjálfstæðisflokki, Miðflokki og Framsókn eins og nú er á Alþingi.

Útspil Sönnu Magdalenu gæti þannig valdið straumhvörfum í borgarstjórnarkosningunum næsta vor náist samstaða á vinstri kantinum þar sem gömlu flokkarnir yrðu lagðir til hliðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Skrímsladeildin stýrir nú Sjálfstæðisflokknum með hjálp önugra gamlingja

Orðið á götunni: Skrímsladeildin stýrir nú Sjálfstæðisflokknum með hjálp önugra gamlingja
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Hnýtir í Sigríði Andersen og spyr hvort hún sé viljandi að misskilja eða vísvitandi að blekkja

Hnýtir í Sigríði Andersen og spyr hvort hún sé viljandi að misskilja eða vísvitandi að blekkja
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Fellibylur í fingurbjörg – stjórnarandstaðan stígur í feitina og verður sér til minnkunar

Orðið á götunni: Fellibylur í fingurbjörg – stjórnarandstaðan stígur í feitina og verður sér til minnkunar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar: Ábyrg stefna eða upphrópanir í útlendingamálum?

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar: Ábyrg stefna eða upphrópanir í útlendingamálum?