
Hlustaðu á þáttinn á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum en textabrot úr þættinum má lesa hér að neðan.
Margrét hefur birt nokkur myndbönd á TikTok um lífið með einhverfu, eins og hvernig er að vinna í stóru fyrirtæki með einhverfu – og viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa.
„Í hvert skipti sem ég hef talað um að vera með einhverfu, að þá fær það mjög mörg áhorf, ég held það sé því fólk er með svo mikla ímynd í hausnum á sér að allir einhverfir eru á einhvern ákveðinn máta. Fólk býst ekki við því að manneskja sem getur talað fyrir framan myndavél og virðist „eðlileg“, að ég gæti verið með einhverja einhverfu. Sem er einmitt ástæðan af hverju ég fékk greininguna svona seint, sem er rosalega algengt hjá konum og stelpum.“
Margrét fékk greiningu fyrir um tveimur árum. „Ég lærði þá svo mikið um sjálfa mig og ég þoli ekki þegar fólk er á netinu: „Þurfa bara allir að fá greiningu við öllu, þarf að vera orð yfir alla, bla, bla, bla.“ Og ég bara… því þetta kemur öðru fólki ekkert við og hefur engin áhrif á þau.“
„Það að fá greiningu og skilja sig betur, manneskjan sjálf græðir bara svo ógeðslega mikið á því. Þetta er ekki einhver stimpill sem maður notar til að komast hjá því að gera hluti. Auðvitað er alltaf að fara að vera fólk sem er fórnarlamb aðstæðna sinna, sama hvað: „Ég get ekki þetta því ég er svona og svona.“ Og það á líka við um fólk sem er ekkert með einhverfu eða ADHD eða neitt, bara fólk sem er bara svona almenn fórnarlömb.“

Margrét ítrekar að fá greiningu sé ekki leið til að hafa afsökun heldur sé þetta mikilvægt tól til að læra um sjálfan sig, hvar eigin mörk liggja og hvað maður getur gert til að gera lífið betra. „Ég fór til dæmis í gegnum allt lífið með svarthvíta hugsun og hélt alltaf að allir væru að segja satt,“ segir hún.
„Það er algengt hjá fólki með einhverfu að allt sem þú segir er bara sannleikurinn. Og allt sem að ég segi, ef ég segi einhverja staðreynd þá er ég búin að kynna mér það og ég er búin að kynna mér þetta svo ógeðslega vel og ég er svo ótrúlega sannfærð um það sem ég segi. Og ef það er einhver vafi á því, þá tek ég það fram. En svo er fullt af fólki sem segir bara eitthvað,“ segir Margrét hlæjandi. „Ég átti svo erfitt með að skilja það.“
@margretsol.art Og já það voru nokkrir sem spurðu hvort ég vildi ekki koma með þeim í mat en ég þarf að vera mentally ON IT í dag að klára verkefni og matsalurinn hefði tekið of mikla orku😛 #autism ♬ original sound – reedbeatz
Margrét áttaði sig líka á því að hún væri ekki eins og aðrir. „Allt með svona skynúrvinnslu, eins og ljós sem þú sérð og hljóð í kringum þig og allt þetta, ég fattaði aldrei hvað það var að hafa mikil áhrif á mig og af hverju ég ætti svona erfitt í sumum aðstæðum.“
Hún tekur dæmi. „Ég fer út að borða með hópi af vinum og það eru kannski þrjú samtöl í kringum mig á stóru borði, það er hávær tónlist, það er matur og lykt allt í kring. Það er annað fólk á næstu borðum sem er að tala. Ég hef svo oft lent í því – að vera í samt mjög góðum hóp af vinum – að ég segi ekki neitt og ég skil ekki af hverju.“
„Ég hef alltaf haldið að ég væri bara svo leiðinleg og óáhugaverð að ég geti ekki tekið þátt í samræðum eins vel og allir hinir í kringum mig og ég skildi ekki af hverju, af hverju geta þau verið svona skemmtileg og lagt svona mikið til samræðna? En ég á erfitt með það og það er ekki einu sinni eitthvað sem að mig langar að segja og ég er eitthvað feimin. Það er ekki það heldur bara öll þessi hljóð og ljós og allt þetta áreiti, það er eins og svona 18 manns séu að öskra inni í heilanum á mér og það er ekki skrýtið að mér dettur ekki í hug neitt til að segja.“
„Og að fá greininguna þá áttaði ég mig á því að ég er ekki gölluð, það er ekki eitthvað að mér og ég er ekki svona leiðinleg manneskja. Heldur skynja ég hluti öðruvísi og þarf að tækla aðstæður á ákveðinn máta en aðrir í kringum mig,“ segir hún.
Margrét ræðir nánar um málið í þættinum sem má hlusta á hér. Hún ræðir einnig um glæstan námsferil sem endaði á starfi sem heilbrigðisverkfræðingur hjá Össur og hvernig hún sagði upp starfi sínu í haust til að elta drauminn og verða sjálfstætt starfandi listakona.
Margrét er í ferlinu að setja upp heimasíðu þar sem er hægt að skoða og kaupa verk af henni, margretsol.is. Hún er einnig virk á Instagram og TikTok undir @margretsol.art.